Enski boltinn

Lygi­legt til­boð Chelsea í leik­mann sem Sout­hampton keypti fyrir að­eins nokkrum vikum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Romeo Lavia fagnar marki sínu gegn Chelsea. Í kjölfarið vildi Lundúnaliðið fá hann í sínar raðir.
Romeo Lavia fagnar marki sínu gegn Chelsea. Í kjölfarið vildi Lundúnaliðið fá hann í sínar raðir. EPA-EFE/VINCE MIGNOTT

Ein af undarlegri sögum félagaskiptagluggans í Englandi átti sér stað á lokadegi hans. Þá reyndi Chelsea að kaupa Romeo Lavia af Southampton á 50 milljónir punda en aðeins eru nokkrar vikur síðan Southampton keypti leikmanninn á 12 milljónir punda.

Félögin í ensku úrvalsdeildinni eyddu fúlgum fjár í sumar. Chelsea fór þar mikinn en miklar breytingar áttu sér stað hjá félaginu í sumar. Ásamt því að skipta um eiganda þá urðu miklar breytingar á leikmannahóp liðsins.

Þó það hafi verið búist við því að Chelsea myndi eyða háum fjárhæðum í sumar þá kom þetta tilboð í Lavia eins og þruma úr heiðskýru lofti. Það var ítalski blaðamaðurinn Fabrizio Romano sem greindi fyrst frá.

Liðin tvö mættust þann 30. ágúst síðastliðinn og skoraði hinn 18 ára gamli Lavia í 2-1 sigri Southampton. Mögulega var Thomas Tuchel, þjálfari Chelsea, svo hrifinn af leikmanninum að hann vildi fá hann í sínar raðir í kjölfarið. Það væri svo sem ekki frásögu færandi nema fyrir þá einföldu staðreynd að Southampton keypti leikmanninn fyrr í sumar af Englandsmeisturum Manchester City. 

Hefði það orðið ein af sögum gluggans ef Lavia hefði fjórfaldast í verði á aðeins nokkrum vikum þar sem Chelsea var tilbúið að borga 50 milljónir punda fyrir miðjumanninn unga.

Man City getur keypt leikmanninn til baka á 40 milljónir svo það er spurning hvort þeir hefðu nýtt forkaupsréttinn og selt hann svo áfram til Chelsea ef orðið hefði af sölunni. Hún gekk á endanum ekki eftir og Belginn ungi er enn leikmaður Southampton, sem stendur allavega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×