„Undirmeðvitundin mín fór að pæla í þessu - og er enn að pæla í þessu,“ segir Pétur um lágmyndirnar en föðurbróðir hans bjó í Kópavogi í húsi þar sem er að finna stóra lágmynd eftir Sigurjón Ólafsson og þar kviknaði lágmynda áhuginn fyrst.
„Mér fannst svo gaman hvað þessi blokk var falleg og af hverju var þetta ekki á hinum blokkunum?“ rifjar hann upp.
Lokaritgerð Péturs í listaháskólanum fjallaði um lágmyndir þar sem hann kafaði dýpra í þetta leynda áhugamál sitt.
„Það sem er svo skemmtilegt við þetta áhugamál er að þetta er á ótrúlegustu stöðum skilurðu. Þetta er á einhverjum skrítnum hliðum á frystihúsum og á bak við bílskúra, þannig þú þarft alveg einbeittan brotavilja til að finna þetta,“ segir Pétur sem setti sér það listræna markmið að koma lágmyndinni inn í nútímalegt form sem getur svo hangið innrammað á veggjum heimila.
Þættirnir KÚNST með Dóru Júlíu rannsaka hinar ýmsu víddir listsköpunar, ólíka listmiðla og sköpunargleði hjá íslenskum samtíma listamönnum ásamt því að fá að skyggnast bak við tjöldin og heyra um persónulegt líf þeirra.