Fótbolti

Aron og félagar styrktu stöðu sína á toppnum með stórsigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson í búningi Al Arabi.
Aron Einar Gunnarsson í búningi Al Arabi. Getty/Simon Holmes

Aron Einar Gunnarsson og félagar hans í Al Arabi styrktu stöðu sína á toppnum í katörsku deildinni í knattspyrnu er liðið vann 1-5 útisigur gegn fallbaráttuliði Al Sailiya í kvöld.

Það voru þó heimamenn í Al Sailiya sem tóku forystuna með marki strax á áttundu mínútu leiksins, en gestirnir jöfnuðu metin níu mínútum síðar og staðan var 1-1 þegar flautað var til hálfleiks.

Aron og félagar tóku svo öll völd í síðari hálfleik og skoruðu hvert markið á fætur öðru. Liðið tók forystuna strax á fjórðu mínútu síðari hálfleiksins og tveimur mínútum síðar var staðan orðin 1-3.

Gestirnir bættu svo tveimur mörkum í viðbót við áður en yfir lauk og niðurstaðan því 1-5 sigur Arons og félaga sem nú eru með fjögurra stiga forskot á toppnum.

Al Arabi er nú með 15 stig eftir fyrstu sex leiki tímabilsins, fjórum stigum meira en Al Wakra sem situr í öðru sæti, en Al Wakra á þó leik til góða. Al Sailiya situr hins vegar í næst neðsta sæti deildarinnar með aðeins þrjú stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×