Enski boltinn

Ósammála frestunum á Englandi

Atli Arason skrifar
Peter Crouch og Gary Neville í leik um Samfélagsskjöldin árið 2008.
Peter Crouch og Gary Neville í leik um Samfélagsskjöldin árið 2008. Getty Images

Sparkspekingarnir Gary Neville, Peter Crouch og Piers Morgan eru ekki sammála þeirri ákvörðun ensku úrvalsdeildarinnar að fresta öllum leikjum helgarinnar en leikjunum var frestað vegna andláts Elísabetar Bretlandsdrottningar. 

„Ég veit að þetta er bara leikur og sumir hlutir eru miklu stærri. Ímyndið ykkur samt ef allir leikirnir hefðu farið fram um helgina,“ skrifaði Crouch á Twitter og bætti við.

„Svört armbönd, mínútu þögn, þjóðsöngurinn, lúðrasveitin að spila o.s.frv. á meðan milljónir manna um allan heim fylgdust með. Væri það ekki betri kveðja?“

Fjölmiðlamaðurinn Piers Morgan er á svipaðri skoðun og Crouch og vitnar í leik West Ham og FCSB í Evrópudeildinni, þar sem stuðningsmenn West Ham sungu til heiðurs drottningarnar. Sá leikur fór fram sama dag og drottningin dó.

„Íþróttaviðburðir ættu að halda áfram. a) Drottningin elskaði íþróttir og b) Það væri frábært að sjá/heyra stóra áhorfendahópa syngja þjóðsönginn til heiðurs drottningarnar, líkt og stuðningsmenn West Ham gerðu svo vel,“ skrifaði Morgan á Twitter en Gary Neville var sammála honum.

„Ég styð þetta Piers. Íþróttir geta sýnt betur en margt annað þá virðingu sem drottningin á skilið,“ skrifaði Neville.

Möguleiki er fyrir því að fleiri leikjum verði frestað í næstu viku og næstu helgi en það hefur þó ekki fengist formlega staðfest enn.


Tengdar fréttir

Ekkert spilað á Englandi um helgina

Öllum fyrirhuguðum íþróttaviðburðum á Englandi um helgina hefur verið frestað. Því verða engir leikir í enska boltanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×