Erlent

Rússar að­stoða Armena eftir átök í nótt

Bjarki Sigurðsson skrifar
Suren Papikyan, varnarmálaráðherra Armeníu, fundaði í dag með Sergei Shoighu, varnarmálaráðherra Rússlands.
Suren Papikyan, varnarmálaráðherra Armeníu, fundaði í dag með Sergei Shoighu, varnarmálaráðherra Rússlands. Varnarmálaráðuneyti Armeníu

Átök urðu milli Asera og Armena við landamæri landanna í nótt. Einhverjir hermenn Armena liggja í valnum eftir nóttina en Armenar segja Asera vera við það að ráðast inn í landið. Varnarmálaráðherrar Armena og Rússa ræddu saman í dag og samþykktu að minnka átökin og stefna að bættu ástandi.

Íbúar Aserbaísjan og Armeníu hafa deilt um áraraðir, þá sérstaklega vegna Nagorno-Karabakh svæðisins í Aserbaísjan. Árið 2020 urðu stór átök milli þjóðanna þar sem 300 manns létu lífið en átökin enduðu með vopnahléi milli ríkjanna sem Rússar tóku þátt í.

Svæðið Nagorno-Karabakh er staðsett inni í Aserbaísjan og tilheyrir þeim formlega en fyrir átökin voru armenskir aðskilnaðarsinnar með völd þar.

Þrátt fyrir tæplega tveggja ára vopnahlé þá hafa þjóðirnar haldið áfram að deila. Í nótt greindi varnarmálaráðherra Armeníu frá því að átök hafi orðið milli þjóðanna í kvöld þar sem að minnsta kosti 49 armenskir hermenn lét lífið.

Að sögn Armena hófu Aserar skothríðina í nótt og segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneyti Armeníu að þeir ætli að svara öllum árásum sem gerðar eru. Verið sé að koma hermönnum fyrir á svæðum til að vernda landamærin. Aserar segja Armena hafa hafið skothríðina.

Samkvæmt varnarmálaráðuneyti Armena hófust átökin í kringum miðnætti á staðartíma í gærkvöldi og segja Armenar að Aserar séu einnig að skjóta á húsnæði þar sem óbreyttir borgarar eru.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í tilkynningu í nótt að Bandaríkin hefðu miklar áhyggjur af þróun mála á landamærunum og hvöttu báða aðila til þess að leggja niður vopn sín.

Í dag funduðu Suren Papikyan, varnarmálaráðherra Armeníu og Sergei Shoighu, varnarmálaráðherra Rússlands. Þær ræddu saman í síma og sagðist Shoighu vilja að bæði ríki myndu hætta átökunum. Ráðherrarnir samþykktu að „taka nauðsynleg skref í átt að því að koma á stöðugleika á svæðinu“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×