Erlent

Skoðar að undan­þiggja Ung­verja við­skipta­þvingunum á Rússa

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti fundaði með Viktori Orbán forsætisráðherra Ungverjalands í Hvíta húsinu í dag.
Donald Trump Bandaríkjaforseti fundaði með Viktori Orbán forsætisráðherra Ungverjalands í Hvíta húsinu í dag. AP

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði það til skoðunar að veita Ungverjalandi undanþágu frá viðskiptaþvingunum á olíu frá Rússlandi. Hann og Viktor Orbán forsætisráðherra Ungverjalands funduðu í Hvíta húsinu í dag.

Trump nýtti tækifærið og bað leiðtoga Evrópu um að sýna Orbán meiri virðingu en hann hefur lengi att þrái við helstu leiðtoga Evrópusambandsins vegna stefnu sinnar hvað varðar innflytjendur, sjálfstæði dómstóla frá ríkisvaldinu. Orbán og Trump hafa alltaf átt mjög gott samband sem og Orbán og Vladímír Pútín Rússlandsforseti. Guardian greinir frá.

Í dag fór fram fyrsti fundur leiðtoganna tveggja frá því að Donald Trump við embætti forseta í annað sinn. Hann jós lofi yfir ungverska starfsbróður sinn og barmaði sér yfir þeirri stöðu sem viðskiptatálmar á rússneska olíu hefur komið Ungverjum í.

Lofræður á báða bóga

Aðspurður sagðist Trump íhuga undanþágu.

„Við erum að skoða það vegna þess að það er mjög erfitt fyrir [Orbán] að ná í olíu og jarðgas annars staðar frá. Þetta er stórt land en þeir eru ekki með aðgang að hafinu. Þeir eiga engar hafnir, þannig að þetta er snúið vandamál,“ sagði Bandaríkjaforseti.

Viktor Orbán hefur verið talsmaður þess að annar fundur Trump og Pútín fari fram. Sá fyrri leiddi fátt annað af sér en tækifæri fyrir Pútín að ganga rauða dregilinn og flytja ræðu. Engir samningar náðust og þolinmæði Trump gagnvart Pútín Rússlandsforseta hóf að þverra í kjölfarið. Bandaríkin beittu tvö stærstu olíufyrirtæki Rússlands, Rosneft og Lukoil, viðskiptaþvingunum í síðasta mánuði en þau hafa haldið áfram olíuflutningum til Ungverjalands sem er mjög háð rússnesku eldsneyti.

Ljóst var af lofræðunni sem Orbán flutti Trump við upphaf fundarins að honum var alvara að ná þessu markmiði sínu enda stendur hann frammi fyrir kosningum á næsta leyti.

„Við erum hingað komnir til að hefja nýjan kafla í tvíhliða sambandi Bandaríkjanna og Ungverjalands, í grunninn vegna þess að á meðan demókratar voru við völd var hér öllu hagrætt,“ sagði hann og vísaði þar til samsæriskenninga um að demókratar hafi unnið forsetakosningarnar 2020 með stórfelldu svindli.

Hrósuðu hvor öðrum fyrir kynþáttafordóma

Donald Trump hélt því svo ranglega fram að innflytjendum fylgdi stórfelld aukning í glæpatíðni.

„Lítið á það sem hefur gerst í Evrópu með innflytjendurna. Fólk streymir inn í Evrópu,“ sagði hann en tók síðan upp talsvert kynþáttamiðaðri málflutning.

„Maður fer til sumra landa, þau eru óþekkjanleg núna vegna þess sem þau hafa gert. En Ungverjaland er mjög auðþekkjanlegt,“ sagði Donald Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×