Erlent

Xi og Pútín funda um innrásina í Úkraínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Xi Jinping hóf fyrstu opinberu ferð sína í rúmt tvö og hálft ár með því að fara til Kasakstan.
Xi Jinping hóf fyrstu opinberu ferð sína í rúmt tvö og hálft ár með því að fara til Kasakstan. EPA/Forsetaembætti Kasakstan

Xi Jinping, forseti Kína, hóf í dag fyrsta ferðalag sitt frá því Covid-faraldurinn hófst, með því að fara til Kasakstan. Hann mun svo funda með Vladimír Pútín, forseta Rússlands, og öðrum leiðtogum Mið-Asíu á komandi dögum í Úsbekistan.

Fundinn sækja leiðtogar ríkja sem tilheyra svokölluðu öryggisbandalagi Sjanghæ eða SCO. Að undanskildum ríkisstjórnum Rússlands og Kína eru ríkisstjórnir Indlands, Kasakstans, Kirgistans, Pakistans og Tadsíkistan í hópnum.

AP fréttaveitan segir að Kínverjar og Rússar, sem leiða þennan hóp, líti á hann sem nokkurs konar mótvægi gegn þeim bandalögum sem Bandaríkjamenn hafa gert í Austur-Asíu.

Xi ætlar að kynna nýja áætlun sem á að vera ætlað að tryggja heimsöryggi á þessum fundi. Hann hefur þó lítið sagt um hvað hún á að fela í sér.

Þá mun Xi eiga fund með Pútín en ráðgjafi rússneska forsetans segir að á þeim fundi verði innrás Rússa í Úkraínu til umræðu. Vesturlönd hafa biðlað til ráðamanna í Peking um að styðja ekki við bakið á Rússum vegna innrásarinnar og framfylgja refsiaðgerðum gegn Rússlandi vegna hennar.

Einn af æðstu embættismönnum Kína lagði nýverið til að Kínverjar styrktu samband sitt við Rússland og að samvinna ríkjanna yrði meiri. Li Zhanshu sagði það vera nauðsynlegt vegna refsiaðgerða og viðskiptaþvingana Vesturlanda gegn ríkjunum tveimur, samkvæmt frétt South China Morning Post.

Þetta sagði Li eftir ferðalag til Rússlands í síðustu viku þar sem hann fundaði meðal annars með Vyacheslav Volodin, forseta rússneska þingsins, og öðrum embættismönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×