Erlent

Hollenskur bær í mál við Twitter vegna sögu­sagna um sataníska barna­níðinga

Bjarki Sigurðsson skrifar
Bæjaryfirvöld vilja hreinsa sig af sögusögnunum um sataníska barnaníðingshringinn.
Bæjaryfirvöld vilja hreinsa sig af sögusögnunum um sataníska barnaníðingshringinn. Bodegraven-Reeuwijk

Hollenski bærinn Bodegraven-Reeuwijk hefur krafist þess að Twitter fjarlægi færslur sem bendla bæinn við satanískan söfnuð barnaníðinga. Sögusagnir um söfnuðinn hafa fengið að viðgangast á miðlinum síðan árið 2020.

Það var fyrir þremur árum sem þrír karlmenn hófu að dreifa sögum á Twitter um meintan söfnuð barnaníðinga í bænum og sögðu þeir hann hafa verið virkan síðan á níunda áratug síðustu aldar.

Í fyrra voru mennirnir þrír dæmdir til þess að fjarlægja allar færslur sínar um söfnuðinn þar sem þær voru ósannar. Þrátt fyrir að þær hafi verið fjarlægðar hefur bærinn kvartað undan því að aðrir notendur Twitter séu að tala um hið ósanna mál.

Meðal þess sem kom fram í færslum mannanna voru nöfn barna sem söfnuðurinn átti að hafa myrt en fjöldi fólks í Hollandi heimsótti bæinn til að votta börnunum virðingu sína.

„Ef samsæringar fjarlægja ekki færslurnar sínar, þá þurfa miðlarnir sjálfir að sjá um það,“ hefur hollenska dagblaðið De Volkskrant eftir Cees van de Zanden, lögmanni bæjarins.

Mennirnir þrír sem hófu að dreifa sögusögnunum eru allir í fangelsi í dag fyrir glæpi ótengda bænum, þar á meðal fyrir að senda dauðahótanir á forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte, og fyrrverandi heilbrigðisráðherra landsins, Hugo de Jonge.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×