Edwards notaði meiðandi og niðrandi ummæli, að mati NBA, um samkynhneigða í myndbandi á Instagram fyrr í þessum mánuði. Fyrir þau fékk hann fjörutíu þúsund Bandaríkjadala sekt. Það samsvarar tæpum 5,7 milljónum íslenskra króna.
Hinn 21 árs Edwards baðst afsökunar á ummælunum í færslu á Twitter. „Það sem ég sagði var óþroskað, meiðandi, ruddalegt og ég biðst innilega afsökunar. Það er óafsakanlegt fyrir mig eða hvern sem er að nota svona orðbragð,“ skrifaði Edwards.
Hann var valinn fyrstur af Minnesota Timberwolves í nýliðavali NBA fyrir tveimur árum. Á sínu fyrsta tímabili í NBA var Edwards með 19,3 stig, 4,7 fráköst og 2,9 stoðsendingar að meðaltali í leik. Á síðasta tímabili skilaði hann 21,3 stigum, 4,8 fráköstum og 3,8 stoðsendingum.
Úlfarnir frá Minnesota komust í úrslitakeppnina á síðasta tímabili en töpuðu þar fyrir Memphis Grizzlies í sex leikjum.