Fótbolti

Ronaldo ekki á þeim buxunum að hætta: Vill spila á EM 2024

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ronaldo kveðst eiga nokkur ár eftir með landsliðinu.
Ronaldo kveðst eiga nokkur ár eftir með landsliðinu. Marcio Machado/Eurasia Sport Images/Getty Images

Cristiano Ronaldo hefur greint frá því að hann hyggist spila með Portúgal á næsta Evrópumóti karla í fótbolta sem fram fer eftir tvö ár. Þá verður hann 39 ára gamall.

Hinn 37 ára gamli Ronaldo verður fyrirliði Portúgals á komandi heimsmeistaramóti sem hefst í Katar í nóvember. Það verður jafnframt han tíunda stórmót á ferlinum.

Hann hefur spilað 189 landsleiki og skorað í þeim 117 mörk, sem er met yfir landsliðsmörk í karlaflokki.

Ronaldo hlaut verðlaun á árlegri verðlaunahátíð portúgalska knattspyrnusambandsins á þriðjudagskvöld hvar hann greindi frá því í þakkarræðu að hann vildi spila áfram fyrir landsliðið næstu ár.

„Ég vonast til að vera hluti af starfi sambandsins í nokkur ár í viðbót,“ sagði Ronaldo

„Hvatningin er enn til staðar og metnaðurinn er mikill. Minni sögu með landsliðinu er ekki lokið. Við eigum fjölmarga hæfileikaríka unga leikmenn. Ég mun vera á HM og ég vil vera með á EM,“ sagði hann enn fremur.

Ronaldo mun vera 39 ára gamall þegar EM fer fram í Þýskalandi sumarið 2024. Undankeppni fyrir mótið hefst í mars á næsta ári.

Ronaldo var fyrirliði landsliðsins þegar það vann EM 2016 í Frakklandi og skoraði þrjú mörk. Hann spilaði aðeins fyrstu 25 mínúturnar í úrslitaleiknum þar sem hann fór meiddur af velli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×