Dagskrá Iceland Airwaves þetta árið er nú klár. Tónlistarhátíðin tilkynnti í dag síðasta hópinn af listamönnum og hljómsveitum sem finna má á dagskránni. Í dag var afhjúpað að Alina Amuri, Altre di B, Alysha Brilla, Anti Paalanen, Arooj Aftab, Atli Örvarsson, Bríet, COSBY, Dr. Gunni, Eliza Shaddad, Emmsjé Gauti, Go_A, Júníus Meyvant, Krummi, Metteson, Múr, SKRATTAR, Supersport!, SVALA, Systur, The Vintage Caravan, Unnsteinn og Vök koma fram á Iceland Airwaves 2022.
Í ár verður boðið upp á dagpassa fyrir alla þá sem vilja fara á tónleika en ætla sér ekki að mæta öll kvöldin.
„Langar þig að upplifa Airwaves en kemst ekki í þrjú kvöld? Eru próf framundan? Er erfitt að fá pössun fyrir krakkana? Engar áhyggjur, þú getur nú nælt þér í dagpassa og átt eitt tryllt kvöld á Airwaves, og haft það kósí hin kvöldin,“ segir í tilkynningu frá aðstandendum hátíðarinnar.
Listamennirnir sem koma fram á Airwaves eru nú tæplega 90 og má búast við algjörri tónlistarveislu þar sem Reykjavík lifnar við. Metronomy, Röyksopp (DJ Set), Arlo Parks, Amyl & the Sniffers, Altin Gun, Reykjavíkurdætur, Sóley og Laufey eru meðal þeirra sem fram koma.
Iceland Airwaves fer fram 3. til 5. nóvember í ár. Hér fyrir neðan má sjá hvernig dagskráin skiptist niður á hátíðardagana.
Fimmtudagur
Amyl & The Sniffers, Júníus Meyvant, Daughters of Reykjavík, Nation of Language, JFDR, Laufey og fleiri
Föstudagur
Metronomy, HAM, Altin Gun, Emotional Oranges, Unusual Demont , Ultraflex, Janus Rasmussen, Chiild, Sóley og fleiri.
Laugardagur
Arlo Parks, Röyksopp (DJ Set), Go_A, VöK, THUMPER, The Vintage Caravan, Árný Margrét og fleiri.