Regnbogahátíðin er nú haldin í sextánda sinn en hún er alltaf haldin að hausti þegar aðrar bæjarhátíðir í landinu eru búnar. Hátíðin hófst á miðvikudaginn og lýkur síðdegis á morgun. Harpa Elín Haraldsdóttir er ein af skipuleggjendum Regnbogahátíðarinnar.
“Það er ýmislegt í gangi og hér liggur fegurðin í fjölbreytileikanum. Við erum svo heppin hér í Mýrdalshreppi að vera mjög fjölbreytt samfélag og það kemur mjög sterkt í gegn í Regnboganum,” segir Harpa Elín og bætir við.
“Þetta er mjög mikið hátíð Mýrdælinga því fólk er að taka virkan þátt. Það er verið að skreyta húsin og að er verið að bjóða í opin hús þar sem fólk er að sýna hvað það er að gera heima fyrir og svo eru líka tónleikar, klassískir, popp og allskonar.”
Í gærkvöldi var alþjóðlegt matarsmakk í íþróttahúsinu, sem er einn af hápunktum hátíðarinnar og í dag er fjölbreytt dagskrá eins og Regnbogamarkaðurinn í Leikskálum og fjölbreytt barnadagskrá verður í gangi.
“Og svo er það hann Skaftfellingur en við erum náttúrulega með það merka skip hjá okkur í Skaftfellingsskemmu, mikil stjarna hérna hjá okkur. Nú ætlum við að halda svolítið upp á það skip því það á mikla og merkileg sögu og akkúrat í ár eru 80 ár frá því að þeir á skipinu björguðu þýskum hermönnum í kafbát í seinni heimsstyrjöldinni," segir Harpa Elín.
Í kvöld verður Bjartmar Guðlaugsson með tónleika í Vík og í kjölfarið verður haldið ball með hljómsveitinni nítján hundruð, sem er með miklar Mýrdælskarrætur. Í fyrramálið verður síðan hátíðarmessa í Víkurkirkju og kaffi á eftir og síðdegis mættir KK í kirkjuna með tónleika, sem verður síðasta atriði Regnbogahátíðarinnar 2022.
Hér má sjá dagskrá Regnbogahátíðarinnar, sem allir eru velkomnir á.