Hækkanir á matvælaverði eru jafnan tengdar og hreyfast í takt við orkuverð sem hefur hækkað mikið að undanförnu, segir í umfjöllun AGS. Verðhækkanir matvæla eru hins vegar óvenju miklar nú og hafa skilað sér inn í almennt verðlag af krafti, sama hvort um ræðir iðnríkja, nýmarkaðsríkja eða þróunarríkja.
Hefur þetta gert miðlun peningastefnu strembna víðast hvar, einkum í fátækari ríkjum þar sem útgjöld vegna innkaupa á mat eru allt að helmingur af einkaneyslu hagkerfisins.
Ástæða þess að matvælaverð hreyfist í takt við orkuverð er í meginatriðum þríþætt. Í fyrsta lagi eru afurðir hráolíu stór hluti aðfangakostnaðar við framleiðslu og flutning matvæla, auk þess sem jarðgas (algeng hliðarafurð hráolíuframleiðslu) er helsta hráefni áburðarframleiðslu. Í öðru lagi hreyfist orku- og matvælaverð almennt í takt við heimshagkerfið í heild og ræðst af eftirspurn. Í þriðja lagi eru ákveðnar tegundir olía sem lengst af voru ætlaðar til manneldis nú nýttar sem eldsneyti í samgöngum. Má þar nefna etanól (sem er blandað út í bensín) og repjuolíu (sem er blandað út í steinolíu).
Síðastnefnda ástæðan varð sérstaklega veigamikil upp úr aldamótum þegar bæði Evrópusambandið og Bandaríkin kynntu til sögunnar lágmarksinnihald endurnýjanlegra íblöndunarefna í eldsneyti á bíla. Eftir þá breytingu fóru hrávörur á borð við maís og repjuolíu að hreyfast mjög í takt við olíuverð.
Stór drifkraftur verðbólgu á heimsvísu
Talið er að hækkanir á matvælaverði hafi bætt við um fimm prósentustigum við verðbólgu á heimsvísu á síðasta ári og sex prósentum á árinu 2022. AGS telur að nokkur óvissa ríki áfram um þróun matvælaverðs, ekki síst þar sem miklar verðhækkanir á áburðarverði að undanförnu hafi ekki ennþá komið fram í matvælaverði dagsins í dag.
Í nýjasta riti Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika er meðal annars fjallað um það hvernig stríðsátökin í Úkraínu hafi aukið til muna efnahagslega óvissu á heimsvísu. Verðbólguhorfur hafa þannig versnað verulega um allan heim, en þar munar mikið um hækkun á orku- og matvælaverði.
„Verðbólga í helstu viðskiptalöndum Íslands hefur ekki verið meiri í fjóra áratugi og verð á jarðgasi hefur sjaldan verið hærra í Evrópu. Framfærslukostnaður heimila í Evrópu hefur því hækkað verulega undanfarna mánuði. Verðhækkanir á olíu hafa aftur á móti gengið að einhverju leyti til baka vegna lakari horfa í heimsbúskapnum,“ segir í ritinu.