SC Magdeburg vann leikinn 41-23 eftir að hafa verið 20-8 yfir í hálfleik. Það var ljóst í hvað stefndi þegar þýsku meistararnir komust í 6-0 í upphafi leiks.
Ómar Ingi Magnússon skoraði fjögur mörk fyrir þýska liðið en þau komu öll af vítalínunni og öll í fyrri hálfleik. Hann spilaði í tæpar sautján mínútur í leiknum og átti einnig tvær stoðsendingar.
Gísli Þorgeir Kristjánsson var í leikmannahópnum en var hvíldur fyrir framhaldið í mótinu. Gísli var í aðalhlutverki með íslenska landsliðinu í tveimur leikjum í síðustu viku.
Lukas Mertens var markahæstur með sjö mörk og Lucas Meister skoraði sex mörk.
Næsti leikur hjá Magdeburg er á móti þriðja liðinu í riðlinum sem eru heimamenn í Khaleej. Sá leikur er ekki fyrr en á fimmtudaginn en Khaleej og Sydney University mætast á morgun. Efsta liðið í riðlinum fer í undanúrslit keppninnar.