Erlent

Brasilískur stjórnmálamaður kastaði handsprengju að lögreglumönnum

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Stuðningsmenn Jeffersson hafa krafist þess að honum verði sleppt úr haldi. 
Stuðningsmenn Jeffersson hafa krafist þess að honum verði sleppt úr haldi.  AP Photo/Bruna Prado

Brasilískur stjórnmálamaður er í haldi lögreglu eftir að hann særði tvo lögreglumenn sem ætluðu að handtaka hann.

Roberto Jefferson er bandamaður Jairs Bolsonaro forseta landsins og býr hann í Rio de Janeiro. Hann hafði verið í stofufangelsi um tíma eftir að hann hótaði dómsmálaráðherra landsins og þegar hótanirnar héldu áfram úrskurðaði dómari að hann skyldi sæta gæsluvarðhaldi.

Þegar lögreglumenn komu að heimili hans í Ríó til að hneppa hann í varðhald tók hann sig til og kastaði handsprengju í átt að þeim. Tveir særðust í sprengingunni eins og áður sagði og lögreglubíll skemmdist töluvert. Hinir særðu voru fluttir á spítala en útskrifaðir skömmu síðar.

Jeffersson, sem er tæplega sjötugur og fyrrverandi formaður PTB hægriflokksins skaut einnig úr riffli á lögreglubílinn þannig að rúður hans brotnuðu.

Mikil spenna er í brasilísku stjórnmálalífi nú um stundir en á sunnudaginn kemur kjósa landsmenn á milli Bolsonaro sitjandi forseta og Lula da Silva, fyrrverandi forseta landsins. Talið er líklegra að Lula beri sigur úr býtum og bindi þar með endahnút á umdeilda valdatíð Bolsonaro.


Tengdar fréttir

Bolsonaro og Lula mætast í annarri umferð

Önnur umferð fer fram í forsetakosningunum í Brasilíu þar sem enginn frambjóðandi fékk fimmtíu prósent atkvæða í kosningunum í gær. Forseti Brasilíu reyndist njóta meiri stuðnings en kannanir gerðu ráð fyrir en andstæðingi hans, fyrrverandi forseta Brasilíu, var spáð talsvert betra gengi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×