Menning

Listaverkauppboð til styrktar Kvennaathvarfinu komið í loftið

Dóra Júlía Agnarsdóttir og Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifa
Verk Tolla er fullt af táknrænum myndum.
Verk Tolla er fullt af táknrænum myndum. Aðsend

Listaverkauppboð til styrktar Kvennaathvarfinu hófst í dag en uppboðið er haldið í samvinnu við Gallerí Fold og Vísi. Má þar finna verk eftir okkar fremsta listafólk sem gaf málverk til málefnisins ásamt hópi einstaklinga sem gaf verk úr einkasafni.

Uppboðið fer fram á vef Gallerí Foldar en frá en áhugasamir geta einnig skoðað uppboðs verkin í sýningarrými Foldar á Rauðarárstíg. Góðgerðarkvöld fer fram þar þann 3. nóvember. 

Safnað er fyrir stærra og hentugra húsnæði fyrir Kvennaathvarfið en yfir 700 konur leita þangað árlega í leit að ráðgjöf og öruggu skjóli. Söfnunarþáttur er á dagskrá Stöðvar 2 þann 10. nóvember.

Vísir hafði samband við Maddý hjá Gallerí Fold og Tolla, sem er meðal þeirra listamanna sem gáfu verk í ár.

Góðgerðaruppboð

„Það er mjög þarft að Kvennaathvarfið fái einhvers konar styrk þar sem það þarf að safna miklum peningum til að byggja nýtt Kvennaathvarf,“ segir Maddý og bætir við að þau reyni tvisvar á ári að vera með góðgerðaruppboð fyrir góðan málstað.

„Nú erum við komin með um 80 verk og ferlið hefur gengið rosa vel. Þetta er opið á vefnum hjá okkur og við verðum með sérstakan viðburð fyrir uppboðið þriðja nóvember næstkomandi.“

Dýrasta verkið á uppboðinu er metið á 1,6 milljónir og er frá Arngunni Ýr.

Samkennd og kærleikur

Listamaðurinn Tolli segir að samkenndin og kærleikur með verkefninu hafi verið kveikjan að því að hann ákvað að taka þátt í verkefninu. Hann gaf málverk til söfnunarinnar sem hefur að geyma minni síðustu aldar af íslensku bændasamfélagi.

Tolli Morthens er meðal listamanna sem gáfu verk fyrir vefuppboð Kvennaathvarfsins í ár.Aðsend

Stöðugleiki og hverfulleiki

„Í málverkinu er að finna arfleifð feðranna og mæðranna, forfeðra og formæðra. Það eru táknmyndir í þessu. Hrafnarnir sem eru sendiboðar milli manna og anda, sveitabýlið stendur fyrir tilvistina og svo er lífsins tréð. Litapallettan er eldur, sem er bæði skapandi og eyðandi. Verkið býr yfir melankólíu á fullu og það er tilfinningaríkt, þetta er bæði mynd um stöðugleika og hverfulleika.“

Hann segir mikilvæg öfl í grasrótarstarfsemi Kvennaathvarfsins.

„Það er gott að nýta öll tækifæri til að setja ljós í eitthvað fallegt og mikilvægt og sýna það í uppbyggilegu ljósi.“

Listamennirnir eru sem áður segir hátt í 80 talsins í ár en ásamt Tolla má sem dæmi nefna Árna Má Erlingsson, Huldu Vilhjálmsdóttur, Kristínu Dóru Ólafsdóttur, Jón Sæmund (Nonna í DEAD), Sigurð Sævar, Kristjönu S. Williams og Ragnar Kjartansson ásamt ýmsum fleirum. 

Hér er hlekkur á Listaverkauppboðið sem er hluti af landsátakinu Saman byggjum við nýtt Kvennaathvarf. Söfnunin nær hámarki með söfnunarþætti sem sýndur verður á Stöð 2 fimmtudaginn 10. nóvember. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×