Erlent

Bolsonaro biðlar til stuðningsmanna sinna um að mótmæla löglega

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Jair Bolsonaro laut í lægra haldi fyrir forsetanum fyrrverandi Lula da Silva. 
Jair Bolsonaro laut í lægra haldi fyrir forsetanum fyrrverandi Lula da Silva.  AP/Eraldo Peres

Jair Bolsonaro fráfarandi forseti Brasilíu hefur biðlað til flutningabílstjóra um að þeir hætti að teppa vegi og tefja umferð í stærstu borgum landsins en brögð hafa verið að því frá því kosningaúrslit urðu ljós um síðustu helgi.

Bolsonaro sagði í ávarpi til stuðningsmanna sinna að slíkar aðgerðir séu ekki hluti af löglegum mótmælum en fólkið er óánægt með að Bolsonaro skyldi hafa tapað fyrir vinstrimanninum Lula.

Lögreglan hefur átt í erfiðleikum með að greiða úr öngþveitinu sem hefur myndast og vegalögreglan segir að um 700 vegatálmar hafi þegar verið fjarlægðir. Á Twitter-síðu sinni sagðist Bolsonaro skilja reiði fólksins en að það þyrfti að hugsa rökrétt og opna vegina. Hann hvatti hinsvegar stuðningsmenn sína til að mótmæla með löglegum hætti.

Bolsonaro hefur enn ekki viðurkennt ósigur sinn en hann virðist þó ekki ætla að standa í vegi fyrir því að Lula verði settur í embættið. 


Tengdar fréttir

Hefur enn ekki viðurkennt ósigur beint útHeyrist ekki bofs í Bolsonaro

Jair Bolsonaro, fráfarandi forseti Brasilíu, tjáði sig í dag í fyrsta skipti síðan hann tapaði fyrir Luiz Inacio „Lula“ da Silva í forsetakosningum þar í landi 30. október síðastliðinn. Bolsonaro virtist ekki mótmæla niðurstöðunni en hann hefur ekki enn beint viðurkennt ósigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×