Enski boltinn

Messi grínaðist með slæmu áhrif Guardiola á fótboltann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og Pep Guardiola á sínum tíma þegar þeir voru að vinna saman hjá Barcelona.
Lionel Messi og Pep Guardiola á sínum tíma þegar þeir voru að vinna saman hjá Barcelona. Getty/Manuel Queimadelos

Lionel Messi og Pep Guardiola bera endalaust virðingu fyrir hvorum öðrum og það er nóg til að hrósi þegar þeir ræða hvorn annan í fjölmiðlaviðtölum.

Messi spilaði undir stjórn Guardiola hjá Barcelona á árunum 2008 til 2012 eða þegar hann var að springa út sem besti knattspyrnumaður heims. Messi var léttur á því þegar hann ræddi Guardiola í nýju viðtali.

Messi grínaðist þar með slæmu áhrif Pep Guardiola á fótboltann.

„Guardiola skaðaði fótboltann af því hann lét þetta líta svo auðveldlega út og í framhaldinu vildu allir gera hlutina eins og hann,“ sagði Lionel Messi brosandi.

„Seinna sá ég marga Guardiola þarna úti og þá áttaði maður sig betur á því hvað við gerðum og hvað það þýddi,“ sagði Messi.

Messi og Guardiola unnu fjórtán titla saman þar á meðal þrennuna á fyrsta tímabilinu 2008-09. Árið 2009 vann Barcelona sex titla.

Guardiola fór frá Barcelona árið 2012 og tók seinna við liði Bayern München í þrjár leiktíðir. Hann hefur síðan verið knattspyrnustjóri Manchester City frá 2016.

Leikstíll liða Guardiola snýst um að halda boltanum innan liðsins og setja síðan hápressu á mótherjanna þegar liðið er ekki með boltann. Messi var spurður af því hvort Guardiola sé besti þjálfarinn sem hann hefur haft.

„Án nokkurs vafa. Hann kemur með eitthvað sérstakt, ofan á það hvernig hann horfði á leiki, undirbjó liðið og hans samskipti við leikmenn. Ástæðan fyrir því er hvernig hann kemur hlutunum til skila við þig,“ sagði Messi.

Fyrir þá sem tala spænsku má sjá Messi í viðtalinu hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×