Tindastóll og Haukar áttust við á Sauðárkróki í fyrstu umferð VÍS-bikarsins þann 17. október síðastliðinn. Tindastóll vann öruggan sigur, en um miðjan þriðja leikhluta voru heimamenn með fjóra erlenda leikmenn inni á vellinum eftir að Haukar fengu tvö vítaskot.
Það stangast á við nýjar reglur KKÍ og Haukum er því dæmdur 20-0 sigur. Samkvæmt nýjum reglum KKÍ mega í mesta lagi þrír erlendir leikmenn vera inni á vellinum í hvoru liði hverju sinni.
Hilmar Smári Henningsson tók vítaskotin tvö fyrir Hauka og hitti úr seinna vítinu. Stólarnir tóku strax leikhlé eftir að vítaskotin höfðu verið tekin og því var boltanum í raun ekki spilað meðan að of margir leikmenn voru á gólfinu. Boltinn telst þó vera í leik þegar víti eru tekin og í reglum KKÍ segir að hafi lið teflt fram ólöglegum leikmanni sé því dæmt 20-0 tap í viðkomandi leik, nema að liðið hafi unnið sigur með stærri mun.
Frá þessu öllu er greint á heimasíðu KKÍ og þar má lesa stuttorða yfirlýsingu. Þar kemur einnig fram að körfuknattleiksdeild Tindastóls þurfi að greiða sekt upp á 250 þúsund krónur. Á heimasíðu KKÍ má einnig sjá úrskurðinn í heild sinni.