Það verður nóg um að vera á opnuninni sem verður á milli klukkan 16:00 og 18:00 en Teitur Magnússon verður viðstaddur og mun spila lög af nýjustu plötu sinni. Hann og Jón Sæmundur hafa sameinað krafta sína í gegnum tíðina þar sem Jón hefur meðal annars hannað plötuumslög fyrir Teit og málað myndir í tengslum við það.

Í fréttatilkynningu segir meðal annars:
„Jón Sæmundur er kröftugur listamaður sem er bæði þekktur í heimi myndlistar og tónlistar.
Viðfangsefni verka hans á sýningunni eru andar en tengsl lífsins, dauðans og þess sem bíður handan dauðans hafa verið listamanninum hugleikin um langt skeið.“
Jón Sæmundur var meðlimur hljómsveitarinnar Dead Skeletons og fyrir tólf árum byrjaði hann að mála einn anda á striga í upphafi hverra tónleika. Hann segir þetta hafa hjálpað sér að undirbúa sig andlega fyrir tónleikana og komast yfir sviðsskrekk. Andarnir fylgja Jóni enn í dag í listsköpun hans og nú ekki bara fyrir tónleika, heldur hvenær sem andinn kemur yfir hann.
„Frá því að ég byrjaði að vinna þessa anda hef ég alltaf gefið þeim lýsandi titla sem enda á -andi. Litandi hefur komið nokkrum sinnum fyrir í eldri verkum og fannst mér hann viðeigandi núna og líka hversu margslunginn hann er. Andar í lit, ég litandi og andlit andans,“ segir Jón Sæmundur aðspurður um hvaðan titill sýningarinnar kemur. Manns andarnir eru ekki eina viðfangsefni hans.
„Einnig verð ég með nokkra hestsanda en það er sterk tenging þar við Mosfellssveitina þar sem ég fór stundum á hestbak með frændfólki mínu Mumma og Ósk í Lágholti og man ég þá sérstaklega eftir hestunum Hrímni, Lýsingi og Ugga sem koma fyrir á sýningunni,“ bætir Jón Sæmundur við að lokum.

Síðasti sýningardagur er 16. desember. Listasalur Mosfellsbæjar er staðsettur inn af Bókasafni Mosfellsbæjar, Þverholti 2. Opið er kl. 9-18 á virkum dögum og kl. 12-16 á laugardögum. Ókeypis og öll velkomin.