Talið er að nafn stúlkunnar sé Kim Chu-ae og að hún sé á aldrinum tólf til þrettán ára.
Myndirnar sem um ræðir sýna feðginin saman við undirbúning prófunar á langdrægum eldflaugum hins algjöra einræðisríkis.
Nokkrar myndir voru birtar af KCNA, hinum opinbera fjölmiðla ríkisins. Þar má sjá þau tvö meðal annars leiðast. Í bakgrunni myndanna eru hinar langdrægu eldflaugar sem ríkið hefur verið að skjóta á loft í tilraunaskyni að undanförnu.

Um er að ræða öflugustu eldflaugar sem ríkið hefur skotið upp og er mögulega talið að drægni þeirra nái alla leið til Bandaríkjanna.
Nær ekkert er vitað um persónulegt líf hins 38 ára Kim Jong-un. Lengi hefur verið uppi orðrómur um að hann ætti dóttur en það hefur aldrei fengist staðfest, fyrr en nú.

Sá orðrómur vaknaði eftir för körfuboltakappans Dennis Rodman til Norður-Kóreu árið 2013. Við heimkomuna greindi hann frá því að hann hafi eytt tíma með fjölskyldu Kim Jong og meðal annars haldið á litlu barni.
Í frétt BBC um málið er rætt við Michael Madden, sérfræðing í málefnum Norður-Kóreu. Segir hann að myndbirtingin geti verið til þess að sýna að mögulegur arftaki leiðtogan sé til staðar.

Talið er mögulegt að Kim Jong-un eigi þrjú börn og að Kim Chu-ae sé það elsta.