„Eftir tveggja ára hlé tökum við þráðinn upp að nýju og nú í samstarfi við frændur okkar í Tórshavnar Manskór frá Færeyjum,“ segir í tilkynningu frá kórnum. Samstarf kóranna má rekja aftur til ársins 1993 og hafa þeir komið saman fimm sinnum síðan þá.
Undanfarin ár hefur Tórshavnar Manskór staðið fyrir jólatónleikum í byrjun desember í Vesturkirkjunni í Þórshöfn og fengið til sín góða gesti. Í ár hlýtur Karlakór Reykjavíkur gestahlutverkið og hefur stjórnandi kórsins, Friðrik S. Kristinsson valið perlur úr dagskrá Aðventutónleika undanfarinna ára til flutnings.
Meðleikari Karlakórs Reykjavíkur er Lenka Mátéová en Tórshavnar Manskór flytja sína dagskrá án undirleiks. Einnig eru skipulagðar þrjár aðrar framkomur í Færeyjum í heimsókn kórsins.
Hvor kór flytur sín 8 lög en sameinast í lokin í 3 lögum í rúmlega 130 manna kór. Viku síðar endurgjalda Færeyingar heimsóknina og syngja með Karlakór Reykjavíkur á Aðventutónleikum í Hallgrímskirkju þann 10. og 11. desember. Bjarni Restorff leiðir Tórshavnar Manskór.