Erlent

Fella niður 33 þúsund Covid-sektir í kjölfar dómsmála

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fleiri en 60 þúsund sektir voru gefnar út vegna sóttvarnabrota í kórónuveirufaraldrinum.
Fleiri en 60 þúsund sektir voru gefnar út vegna sóttvarnabrota í kórónuveirufaraldrinum. epa/Bianca de Marchi

Yfirvöld í Nýju Suður-Wales í Ástralíu hafa fellt niður yfir 33 þúsund sektir sem gefnar voru út vegna brota á sóttvarnareglum í kórónuveirufaraldrinum. Ákvörðunin var tekin í kjölfar þess að dómsmál voru höfðuð á hendur yfirvöldum, sem gengust við því að sektirnar hefðu verið óljósar.

Um er að ræða helming allra þeirra sekta sem gefnar voru út í ríkinu sökum sóttvarnabrota. Einstkaklingar voru sektaðir um allt að 95 þúsund krónur en fyrirtæki um allt að 5,2 milljónir króna og nam heildarupphæð hinna niðurfelldu sekta samtals um 2,8 milljörðum króna.

Yfirvöld segja ákvörðunina um að fella niður sektina ekki til marks um að brotin hafi ekki verið framin, heldur hefðu sektirnar ekki falið í sér nógu ítarlega útskýringu á því fyrir hvað verið var að sekta.

Þeir sem þegar hafa borgað sektirnar fá endurgreitt.

Einn af þeim sem höfuðu mál vegna sektanna var Rohan Pank, sem var sektaður um 95 þúsund krónur fyrir að sitja á bekk í almenningsgarði í Sydney. Annar var sektaður fyrir „að taka þátt í fjöldasamkomu utandyra“.

Redfern Legal Center, sem stóð að baki dómsmálunum, segir um að ræða mikilvægan sigur en sektirnar hefðu getað haft alvarlegar fjárhagslegar afleiðingar í för með sér, ekki síst fyrir efnaminni einstaklinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×