Jól

„Gestirnir, þeir koma í raun og veru með jólin til mín“

Tryggvi Páll Tryggvason og Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifa

Það var ekki laust við að jólaandinn næði alla leið suður fyrr í kvöld þegar fréttamaður okkar, Tryggvi Páll Tryggvason náði tali af Benedikt Inga Grétarssyni, yfirjólasveini Jólagarðsins norður í landi.

Fyrsti jólasnjórinn féll fyrr í vikunni fyrir norðan og lét jólasnjórinn sig ekki vanta í þetta innslag kvöldfrétta. Aðspurður hvort að hann hafi pantað snjósendinguna segist Benedikt hafa gert það, sendingin hafi þó komið aðeins of snemma.

„Við pöntunum hann svona í hæfilegri slæðu yfir frosna jörð þannig að þetta er alveg geggjað,“ segir Benedikt kátur. Snjórinn geri allt jólalegt og sé góður ef færðin er í lagi og hálka lítil.

Þegar fréttamann bar að Jólagarði streymdi fólk að og var bílastæðið nærri fullt. Þó margt fólk kíki við í kringum jól segir Benedikt nóg að gera að sumri til.

„Sko, gestirnir á sumrin eru fleiri, en gestirnir sem koma fyrir jólin, þeir eru að hugsa um jólin og gjafir og þess háttar. Á sumrin er þetta svona meira eitthvert flipp.“

Benedikt segir umhverfið og umstangið verða jólalegra með hverju árinu sem líður en hann hefur verið lengi í jólabransanum.

„Nú er fólk að koma með barnabörnin sem komu fyrst, þá voru þau lítill, þannig að þetta er farið einhvern veginn að verða manni miklu persónulegra. Ég segi núna í seinni tíð að gestirnir, þeir koma í raun og veru með jólin til mín,“ segir Benedikt.

Aðspurður hvort hann sé með einhver jólaskilaboð til landsmanna leggur hann áherslu á það að fólk sé gott við hvort annað og láti sjá sig fyrir norðan.

Viðtalið við Benedikt má sjá í spilaranum hér að ofan. 








×