Álfurinn, sem hefur fengið nafnið Kátur, er falinn á nýjum stað í Kringlunni á hverjum degi. Í dag fengu öryggisverðir tilkynningu um mann sem hafði klifrað upp á handrið við rúllustiga og lagt sig í mikla hættu, þar sem hátt fall var niður.
Í ljós kom að maðurinn hafði misskilið reglurnar og haldið að það ætti að klófesta álfinn sem hékk í skilti. Þegar öryggisverði bar að hafði manninum tekist að ná álfinum niður og hafði skundað með hann á þjónustuborðið þar sem hann bjóst við verðlaunum fyrir afrekið. Að sögn Baldvinu Snælaugsdóttur, markaðsstjóra Kringlunnar fékk maðurinn kærar þakkir en um leið útskýringar á leikreglum og að sjálfsögðu glaðning.
Í tilkynningu sem Kringlan sendi frá sér í kjölfar atviksins kemur fram að þau ítreki að „finnir þú Kát í dag eða næstu daga, EKKI reyna að ná honum heldur taktu mynd og sendu okkur.“
Meðfylgjandi myndir eru frá viðskiptavinum Kringlunnar sem fundið hafa furðuleg uppátæki Káts.