Enski boltinn

Goncalo Ramos gæti líka komið í staðinn fyrir Ronaldo hjá Man. United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Goncalo Ramos fagnar einu af þremur mörkum sínum á móti Sviss í sextán liða úrslitunum á HM í Katar.
Goncalo Ramos fagnar einu af þremur mörkum sínum á móti Sviss í sextán liða úrslitunum á HM í Katar. Getty/Alessandra Tarantino

Ein af stóru sögum heimsmeistaramótsins í Katar var þegar Cristiano Ronaldo missti sæti sitt i byrjunarliði Portúgals og í staðinn kom Goncalo Ramos inn í liðið og skoraði þrennu.

Nýjustu fréttir frá félaginu sem losaði sig við Cristiano Ronaldo rétt fyrir HM er að Goncalo Ramos gæti líka komið í staðinn fyrir Ronaldo hjá Man. United.

United er að leita sér að framherja til að fylla í skarðið sem Ronaldo skilur eftir sig eftir að hann fór út með látum rétt fyrir heimsmeistaramótið.

Forráðamenn United eru samkvæmt heimildum ESPN sagðir ætla að kanna möguleikann á því að kaupa Ramos frá Benfica í janúarglugganum.

Ramos er ekki sá eini sem United er að skoða það eru líka Cody Gakpo, Rafael Leao og Joao Felix.

Það er ekki auðvelt að kaupa leikmenn í janúarglugganum og samkvæmt fyrrnefndum heimildum þá þurfa menn hjá Manchester United að passa upp á peninginn vegna þrengri stöðu í peningamálum vegna afleiðinga kórónuveirufaraldursins.

v

Knattspyrnustjórinn Erik ten Hag hefur því fengið að vita að það sé ekki öruggt að hann fái nýjan framherja í næsta mánuði þótt að Hollendingurinn sjálfur setji pressu á það.

Ramos var nálægt því að fara fram Benfica í sumar en var áfram hjá félaginu eftir að það vann sér sæti i riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Benfica hafði hlustað á tuttugu miljón punda tilboð í Ramos fyrir tímabilið en verðmiðinn hans hefur hækkað mikið síðan ekki síst eftir þrennuna á móti Sviss í sextán liða úrslitunum.

Ramos hefur líka skorað 14 mörk í 21 leik á leiktíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×