Þetta var ákveðið á fundi bæjarstjórnar Seltjarnarness á miðvikudag. Þar kemur fram að Þór hafi sjálfur haft frumkvæði að tímabundinni lækkun fastra launa bæjarstjóra um 200 þúsund krónur á mánuði fyrir almanaksárið 2023.
„Með því vil ég sýna gott fordæmi til hagræðingar í rekstri bæjarfélagsins,“ segir Þór í bókun sinni.
Bæjarstjórn Seltjarnarness samþykkti sömuleiðis samhljóða að bæjarfulltrúar myndu taka á sig fimm prósenta launlækkun fyrir setu sína í bæjarstjórn á árinu 2023.
„Ákvörðunin gildir ekki um nefndarlaun, er tímabundin og gildir eingöngu fyrir árið 2023. Með því sýna bæjarfulltrúar gott fordæmi í þeim hagræðingaraðgerðum sem við blasa í rekstri bæjarins,“ segir í bókuninni.
Bæjarstjórn hefur unnið að gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023 síðustu vikur og mánuði. Áætlunin hefur nú verið samþykkt og felur í sér ýmsar hagræðingaraðgerðir í rekstri sveitarfélagsins.
„Í því efnahagsástandi sem við búum við í dag er líklega um eina mest krefjandi vinnu við fjárhagsáætlun í sögu bæjarfélagsins,“ segir í bókun Þórs bæjarstjóra.