Menning

Sigur­jón Sig­hvats stelur frá þjófi og skammast sín ekkert

Jakob Bjarnar skrifar
Myndlistarmaðurinn Sigurjón Sighvatsson storkar hinni áleitnu spurningu um höfundarrétt með verkum sínum.
Myndlistarmaðurinn Sigurjón Sighvatsson storkar hinni áleitnu spurningu um höfundarrétt með verkum sínum. Sigurjón Ragnar

Klukkan 13.30 bæði laugardag og sunnudag um þessa helgi mun Jón Proppé listheimspekingur taka Sigurjón Sighvatsson í listamannaspjall um hliðarsjálf sitt CozyBoy en sýning á verkum hans stendur nú yfir við Hafnartorg.

Spjall þeirra félaga og leiðsögn um sýninguna verður opið öllum áhugasömum en þar eru undir athyglisverðar og knýjandi spurningar um höfundarétt.

Eins og kvikmyndaunnendur þekkja hefur Sigurjón skráð sig í sögubækurnar sem afkastamesti kvikmyndaframleiðandi landins auk þess að vera umsvifamikill fjárfestir, viðskiptamaður og stórtækur listaverkasafnari. Á allra síðustu árum hefur hann svo stigið fram sem myndlistarmaður undir nafninu CozyBoy og ljósmyndari undir eigin nafni.

Stolið frá þjófi

Fyrir tveimur árum birtist sýning CozyBoy „Becoming Richard“ á 287 auglýsingaskjám á höfuðborgarsvæðinu. Yfir fimmtíu verk voru unnin upp úr Instagram færslum og lyndistáknum (emojis) frá bandaríska listamanninum Richard Prince sem fengu nýtt samhengi hjá CozyBoy.

Í tilkynningu frá Sigurjóni segir meðal annars að Richard Prince sé sá listamaður okkar daga sem líklega hvað mest hefur verið sakaður um að nota hugverk annarra listamanna, án þess að geta til um uppruna verkanna. Af þessum sökum hafa dómsmál ítrekuð verið höfðuð á hendur honum. „Prince lætur sér þó ekki segjast, heldur semur endurtekið um greiðslur við þá sem saka hann um stuld á sínum hugverkum. Er það eina viðurkenning hans á því að hann er ekki höfundur eigin verka að öllu leyti.“

Í Becoming Richard seríunni eftir CozyBoy er tekist á við spurninguna um höfund og höfundarétt, sem hefur líklega aldrei verið áleitnari en nú. Verkin voru vísvitandi sköpuð upp úr efnum hins þekkta bandaríska listamanns, og beinlínis vakin athygli á uppruna þeirra með nafngift sýningarinnar, ólíkt því sem því sem sjálfur Prince heldur fram um sín eigin verk.

Inn úr kuldanum

Sigurjón, eða CozyBoy, hefur nú bætt um betur og ákveðið að endurskapa sín eigin verk og færa inn í sýningarrými sem varanleg verk, en ekki bara skammtíma skilaboð á úti auglýsingaskiltum. Eða svo enn sé vitnað til tilkynningar frá listamanninum: „Sannarlega hafa þessi varanlegu verk, sem eru gerð úr áli, plexigleri og LED ljósum, sterkari höfundareinkenni en þau upphafleg.“

Og spurt er hvort slík einkenni dugi til að hann geti kallað þau sín eigi? „Eða eru þau bara ólistræn aðlögun að hinum upprunanlegu verkum Prince, sem eru þegar allt kemur til alls hreint ekki upprunaleg, hvað sem hann segir sjálfur. Þessar spurningar ásamt fleirum verða viðfangsefni Jóns og Sigurjóns í spjalli þeirra um helgina.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×