Leikkonurnar góðkunnu Elva Ósk, Katla Margrét, Ólafía Hrönn og Vigdís flytja frumsamin jólalög af plötunni „Rugl góð jólalög“ ásamt fleiri góðum lögum sveitarinnar. Þetta er fyrsta jólaplata Heimilistóna, en á henni er meðal annars að finna Jólalag ársins á Rás 2 á síðasta ári „Anda inn“.
Það var hlýleg jólastemning og fullt út úr húsi síðastliðið laugardagskvöld þegar Heimilistónar héldu jólatónleika í Húsi máls og menningar og hefur sveitin nú bætt við aukatónleikum á sama stað klukkan átta í kvöld.
Gaman og gleði á aðventunni
„Ég verð að segja að nafnið á plötunni er réttnefni. En þetta hrökk upp úr einni okkar í stúdíóinu þegar við vorum að taka lögin upp. Þetta hljómar kannski belgingslegt en þetta var sagt með hjartanu og ef ég á að dæma af viðbrögðum hlustenda bæði af tónleikunum siðastliðin laugardag og þeirra sem hafa hlustað á plötuna þá eru þeir sammála. Það má geta þess að öðlingurinn hann Vignir Snær tók upp plötuna og við hefðum ekki getað fengið betri mann,“ segir Ólafa Hrönn, eða Lolla eins og hún er oftast kölluð.
Þá segir Elva Ósk að það hafi verið gaman að sjá gleðina sem sveif yfir salinn á tónleikunum á laugardagskvöldið.
„Það er gott að sjá fólk ná að njóta á þessum annatíma sem aðventan er. Við vorum eitthvað að spá og spökulera hvort fólk kæmi því það er svo mikið í boði, en jú, það var stappað og okkur þótti það gleðilegt. Við erum stoltar af þessum nýju lögum okkar og glaðar að þau líði vel í landann,“ segir hún og Katla tekur í sama streng.
„Tónleikarnir á laugardaginn glöddu okkur mikið. Gaman að flytja þessi lög og ekki síður að fá gestina með í samsöng á þekktum jólalögum. Þá fékk ég gæsahúð.“
Þá segir Vigdís að gömlu lög sveitarinnar hitti ávallt í mark hjá gestum.
„Það er óskaplega gaman að fá tækifæri til að að spila jólalögin okkar fyrir tónleikagesti og skapa jólastemningu. Tónlist er svo stór hluti af jólahaldinu, það eru engin jól án tónlistar.“
Tónleikar Heimilistóna hefjast klukkan átta í kvöld. Miðasala er í Húsi máls og menningar og miðaverð er 2.900 krónur. Vínylútgáfa plötunnar er nýkomin úr prentun og verður seld á staðnum á 5.000 krónur. Á plötunni má finna QR kóða sem vísa á Spotify fyrir þá sem vilja kaupa plötuna en eiga ekki plötuspilara.