Erlent

Lula sór em­bættis­eið og hét því að látið yrði af skógar­eyðingu

Atli Ísleifsson skrifar
Luiz Inacio Lula da Silva forseti og Rosangela da Silva forsetafrú, ásamt Geraldo Alckmin varaforseta og Maria Lucia Ribeiro Alckmin, eiginkona hans.
Luiz Inacio Lula da Silva forseti og Rosangela da Silva forsetafrú, ásamt Geraldo Alckmin varaforseta og Maria Lucia Ribeiro Alckmin, eiginkona hans. EPA

Luiz Inacio Lula da Silva sór embættiseið sem forseti Brasilíu í þriðja sinn fyrr í dag. Hann tekur við embættinu af Jair Bolsonaro eftir að hafa unnið nauman sigur í síðari umferð forsetakosninganna í lok október.

Lula sór embættiseið í höfuðborginni Brasilíu og er áætlað að um 300 þúsund manns hafi komið saman til að fagna hinum nýja forseta. Í frétt BBC segir að mikil öryggisgæsla hafi verið á götum höfuðborgarinnar þar sem margir óttuðust að stuðningsmenn Bolsonaro myndu reyna að trufla athöfnina.

Í innsetningarræðu Lula til þjóðarinnar hét hann því að byggja upp landið í samvinnu við fólkið í landinu. Hann sagðist sömuleiðis ætla sér að berjast fyrir bættum kjörum fátækra, vinna að auknu kynjajafnrétti og auka jafnrétti milli ólíkra þjóðernishópa.

Áætlað er að um 300 þúsund manns hafi haldið út á götur Brasiliu til að fagna embættistöku Lula.EPA

Þá vakti það athygli að Lula sagðist ætla að ná því markmiði að stöðva allri skógareyðingu í Amasónfrumskóginum, en skógareyðing jókst mikið eftir að Bolsonaro tók við forsetaembættinu fyrir fjórum árum.

Nú hefst þriðja skipunartímabil hins 77 ára Lula sem forseti, en hann gegndi einnig embættinu á árunum 2003 til 2011.

Bolsonaro var ekki viðstaddur innsetningarathöfnina en hann hélt af landi brott i herflugvél til Bandaríkjanna síðastliðinn föstudag.


Tengdar fréttir

Hét nýjum degi fyrir Amason­frum­skóginn

Luiz Inacio Lula da Silva, nýkjörinn forseti Brasilíu, hét því að nýr dagur væri runninn upp fyrir Amasonfrumskóginn og að hann ætlaði að taka á ólöglegu skógarhöggi þar á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×