Viðskipti innlent

Þurfa að bíða fram á næsta dag eftir pening fyrir flöskur og dósir

Kjartan Kjartansson skrifar
Ný greiðslukassi á móttökustöð Endurvinnslunnar. Nú er skilagjald greitt í gegnum snjallforrit eða með millifærslu í kössum sem þessum.
Ný greiðslukassi á móttökustöð Endurvinnslunnar. Nú er skilagjald greitt í gegnum snjallforrit eða með millifærslu í kössum sem þessum. Vísir/Sigurður Orri

Viðskiptavinir Endurvinnslunnar geta ekki lengur fengið greitt samstundis fyrir flöskur og dósir með greiðslukorti. Þess í stað þurfa þeir að sækja sér snjallforrit eða millifæra inn á reikning. Fyrst um sinn verður skilagjaldið ekki millifært fyrr en næsta virka dag á eftir.

Sértæk greiðslulausn fyrir Endurvinnsluna sem hefur boðið upp á þann möguleika að leggja skilagjald fyrir flöskur og dósir samstundis inn á reikning með því að renna greiðslukorti í gegnum kortalesara var tekin úr notkun um áramótin. 

Í tilkynningu á vefsíðu Endurvinnslunnar kemur fram að þetta sé vegna breytinga á grunnkerfum kortafærslna. Í viðtali við Morgunblaðið fyrir helgi sagði Helgi Lárusson, framkvæmdastjóri Endurvinnslunnar, að ekki væri gert ráð fyrir endurgreiðslum hjá greiðsluhirðum og því hafi þurft að finna nýja lausn.

Í staðinn geta viðskiptavinir annað hvort náð sér í sérstakt snjallforrit og fengið skilagjaldið greitt í gegnum síma. Þeir sem annað hvort eiga ekki síma eða vilja ekki ná sér í forritið geta notað greiðslukassa á móttökustöðvum Endurvinnslunnar til þess að greiða út miða.

Fyrst um sinn verður millifært á reikninga viðskiptavina næsta virka dag eftir skil. Á upplýsingasíðu Endurvinnslunnar um breytingarnar segir þó að vonir séu bundnar við hægt verði að stytta útgreiðslutímann niður fyrir klukkutíma á næstu mánuðum.

Samkvæmt upplýsingum frá Reiknistofu bankanna er verið að leggja niður sérlausn á milli Endurvinnslunnar og banka. Breytingarnar hafi því ekki áhrif á aðra þjónustu. Breytingarnar séu liður í nútímavæðingu greiðslukerfa og einföldunar á tækniumhverfinu. Í þeim felist meðal annars sérlausnum sem þessum sé fækkað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×