Fyrir leikinn í kvöld var Lazio í fjórða sæti deildarinnar en Roma í sjöunda sætinu, þremur stigum á eftir, en fjögur efstu lið deildarinnar ná sæti í Meistaradeildinni að ári.
Roma tók á móti Bolgona á heimavelli sínum Stadio Olimpico og voru ekki lengi að taka forystuna þegar Lorenzo Pellegrini skoraði úr vítaspyrnu strax á sjöttu mínútu leiksins.
Staðan í hálfleik var 1-0 en í síðari hálfleiknum þurfti Paulo Dybala meðal annars að fara af velli hjá Roma vegna meiðsla. Lærisveinar Jose Mourinho héldu þó út og unnu góðan 1-0 sigur.
Á sama tíma lék hitt Rómarliðið, Lazio, á útivelli gegn Lecce. Lazio komst yfir á 14. mínútu þegar Ciro Immobile skoraði en í síðari hálfleiknum svöruðu heimamenn með tveimur mörkum. Fyrst skoraði hinn brasilíski Gabriel Strefezza á 57.mínútu og Lorenzo Colombo skoraði sigurmarkið þegar um tuttugu mínútur voru eftir. Lokatölur 2-1 og Lecce þar með komið upp í tólfta sæti deildarinnar.
Fjórir leikir eru á dagskrá í Serie A í kvöld og þar á meðal stórleikur Inter og Napoli.