Efling sleit í gær kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins eftir margra mánaða samningaviðræður og stefnir í hörðustu vinnudeilur á Íslandi í áratugi. Efling hefur farið fram á sérsamninga, ólíka þeim sem gerðir voru við öll önnur aðildarfélög Starfsgreinasambandsins í desembermánuði.
Efling hefur farið fram á að grunnlaun hækki á bilinu 40 til rúmlega 64 þúsund krónur en þar að auki fái allir félagsmenn fimmtán þúsund króna framfærsluuppbót. Þannig hækki laun um fimmtíu og fimm til tæplega áttatíu þúsund krónur.
Í könnun sem gerð var meðal Eflingarfélaga síðastliðið haust voru 80 prósent af þeim rúmlega 3.500 sem tóku þátt hlynntir verkfalli.
Samninganefnd Eflingar mun koma saman á næstu dögum og gera má ráð fyrir að hún muni þá móta stefnu sína í komandi aðgerðum og ákveða hvenær tillaga um verkfall verður lögð fyrir félagsfólk. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hve margir félagsmenn Eflingar tækju þátt í aðgerðunum en fimmtungur þeirra sem verkfallið tekur til þarf að greiða um það atkvæði og minnst helmingur þeirra að samþykkja verkfall.
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari segist munu verða í sambandi við bæði formenn samninganefnda SA og Eflingu núna í framhaldinu þrátt fyrir að slitnað hafi upp úr viðræðum.
„Og mun meta stöðuna en ég boða ekki til fundar nema að það sé ástæða til þess, að ég telji að samtalið geti þokast áfram með því að hittast. Eins og staðan er núna eru engar vonarglætu sem gefa ástæðu til að kalla til fundar á þessum tímapunkti,“ segir Aðalsteinn.