Bæjarráð Grindavíkur fjallaði um málið á fundi sínum í gær en í fundargerð kemur meðal annars fram að bæjarráð lýsi yfir miklum vonbrigðum að Vinnumálastofnun hafi ekkert gert með afgreiðslu bæjarstjórnar sem byggði á lögfræðiáliti um að móttaka flóttafólks eða hælisleitenda samræmist ekki samþykktri notkun hússins eða deiliskipulagi, en starfsemi er nú þegar hafin í húsinu.
Hjálmar Hallgrímsson, er formaður bæjarráðs.
„Vinnumálastofnun boðaði til fundar eða bauð okkur samning um móttöku á flóttamönnum og við höfnuðum þeim samningi og bentum bara á aðstæður okkar hér. Bæði í félagsþjónustu og ýmislegt annað og vegna húsnæðiseklu. Við erum ekki með neitt húsnæði frekar en annars staðar á suðvesturhorninu.“
En fólk er nú þegar byrjað að flytja inn.
„Já þeir gera það, án nokkurs samráðs við okkur og þá byrja þeir bara að setja inn fólk og þannig er staðan.“
Hjálmar segir að enginn verði þó borinn út.
„Við erum ekkert að fara að bera einn eða neinn út og við munum aldrei gera það. Þetta er mín skoðun og ég veit að bæjarstjórn er sammála mér um að við erum ekkert að fara í þetta. En vinnubrögð Vinnumálastofnunar og þá Útlendingastofnunar líka. Þeir skrá fólk í Grindavík í tiltölulega ósamþykkt húsnæði sem er okkar mat. Síðan tökum við bara við þeim, þetta er svona meginmálið. Húsið sjálft er skráð sem hótel og fékk starfsleyfi sem hótel en það er ekki hótel rekið þarna.“