Innlent

Guðni forseti sér möguleika á verðlaunapalli

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem reiknar fastlega með að íslenska landsliðið komist á verðlaunapall á HM í handbolta.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem reiknar fastlega með að íslenska landsliðið komist á verðlaunapall á HM í handbolta. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Forseti Íslands er sannfærður um að íslenska landsliðið í handbolta eigi góðan möguleika á að komast á verðlaunapall á HM í Svíþjóð. Hann stefnir á að fara á mótið á einhverjum tímapunkti þess.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands er í sigurvímu eins og aðrir landsmenn eftir frábæran sigur íslenska landsliðsins gegn Portúgal í gærkvöldi en hann var staddur á Selfossi í gær þegar leikurinn fór fram.

„Hvar er nú betra að vera en á Selfossi, helstu útungunarstöð okkar handboltamanna, en auðvitað er það skarð fyrir skildi að Haukur Þrastarson meiddist skömmu fyrir mótið, það hefði verið sannarlega gott að hafa hann,” segir Guðni.

En mun íslenska landsliðið lenda á verðlaunapalli á mótinu?

“Já því ekki, til þess er nú leikurinn gerður. Það væri nú lítið vit í að fara á svona mót og hugsa svo já ég ætla bara að vera með og njóta þess að vera í Svíþjóð, nei, við erum ekki komnir til þess að horfa á, við erum komin til að vinna,” segir Guðni mjög bjartsýnn á gengi liðsins.

En ætlar Guðni að fara út til Svíþjóðar og fylgjast með strákunum?

“Það er aldrei að vita. Annir hér heima eru ýmsar en gangi okkur vel þá mæti ég, já, já, að sjálfsögðu.”

Guðni fylgdist með leiknum í gærkvöldi með heimilisfólki á Móbergi, nýju hjúkrunarheimili á Selfossi.Aðsend



Fleiri fréttir

Sjá meira


×