Þetta herma heimildir Vísis en keppendurnir vildu ekki staðfesta þátttöku sína í samtali við Vísi. Trúnaður ríkir milli keppenda og RÚV varðandi þátttöku í keppninni.
Celebs bætist þar með í hóp þeirra fjögurra flytjenda sem Vísir tilkynnti fyrr í dag. Það eru þau Kjalar Martinsson, Sigríður Ósk Hrafnkelsdóttir, Úlfar Viktor Björnsson og Diljá Pétursdóttir.
Sjá: Þessir fjórir flytjendur munu keppa í Söngvakeppninni
Tíu lög hafa verið valin til þátttöku keppninnar í ár. Alls sóttu 137 lög um þátttöku og valdi valnefnd FÍH, FTT og RÚV sex þeirra til þátttöku. Til viðbótar var leitað til fjögurra flytjenda sem munu einnig taka þátt í keppninni. Lögin tíu, höfundar og flytjendur verða kynnt á RÚV á laugardaginn.
Hafa öll unnið Músíktilraunir
Þessi músíkölsku systkini eru á aldrinum 20-28 ára og koma frá Suðureyri. Systkinin eiga það sameiginlegt að hafa öll unnið keppnina Músíktilraunir. Þeir Valgeir og Hrafnkell unnu keppnina árið 2015 sem hljómsveitinni Rythmatik. Katla fetaði svo í fótspor þeirra árið 2017 þegar hún vann keppnina með hljómsveitinni Between Mountains.
Árið 2019 ákváðu systkinin svo að sameina krafta sína og stofna hljómsveitina Celebs. Síðan þá hafa þau komið fram á hinum ýmsu hátíðum.
Voru tilnefnd til íslensku tónlistarverðlaunanna
Celebs hefur gefið út þónokkur lög en þeirra mest spilaða lag á Spotify er lagið Kannski hann. Þá hefur sveitin gefið út fjögur tónlistarmyndbönd. Þess má geta að árið 2021 hlaut Celebs tvær tilnefningar til íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir rokkplötu ársins og rokklag ársins.
Hér fyrir neðan má sjá tónlistarmyndband við lagið Kannski hann. Athugið að þetta er þó ekki lagið sem sveitin mun flytja í Söngvakeppninni.