Þröstur hefur gegnt dagskrárstjórn á Rás 1 í nærri níu ár, eða frá 1. apríl 2014.
Fram kom á Vísi árið 2018 að vinnusálfræðingur hefði verið fenginn til að fara yfir samskipti á vinnustað með starfsmönnum Rásar 1. Þá var nýlokið könnun á viðhorfum starfsmanna gagnvart stofnuninni og kom á daginn að á flestum deildum stofnunarinnar var ánægja ríkjandi. Þó kom í ljós óánægja meðal starfsmanna á Rás 1 en þar voru fastir starfsmenn í kringum á þriðja tug auk lausafólks.
Vísir ræddi við nokkra starfsmenn á RÚV á þeim tíma sem lýstu þessu sem heldur hvimleiðri kvöð, að sitja undir glærusýningum og fundi með vinnustaðasálfræðingum til að fara vandlega í saumana á samskiptum á vinnustað. Einkum þar sem þeir töldu vandann aðeins snúa að Þresti. Hann þætti ekki mjög lipur í mannlegum samskiptum.
Þröstur er með BA-gráðu í íslensku og meistaragráðu í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands. Þá varð hann doktor í almennri bókmenntafræði við íslensku- og menningardeild HÍ vorið 2015. Ritgerð hans nefndist Tímaritið Birtingur og íslenskur módernismi. Lítil tímarit, landfræði, menningarsaga.
Þröstur var ritstjóri Lesbókar Morgunblaðsins um átta ára skeið og hefur starfað sem stundakennari, þáttagerðarmaður og bókmenntagagnrýnandi.
Ekki náðist í Þröst við vinnslu fréttarinnar.
Fréttin var uppfærð klukkan 13:52. Í fyrri útgáfu var haft eftir Heimildinni að Þröstur hefði vísað til þess að mat starfsmanna hefði haft áhrif á ákvörðun hans. Þetta hefur verið leiðrétt í frétt Heimildarinnar.