Enski boltinn

Nauðgari rekinn degi eftir að hann skoraði þrennu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
David Goodwillie er aftur orðinn atvinnulaus.
David Goodwillie er aftur orðinn atvinnulaus. getty/Rob Casey

Enska utandeildarfélagið Radcliffe hefur rekið David Goodwillie degi eftir að hann skoraði þrennu í leik með liðinu.

Goodwillie skoraði þrjú mörk í 4-2 sigri Radcliffe á Belper Town í gær. Það var hans fyrsti og síðasti leikur fyrir félagið. Fæstir vissu að Goodwillie væri kominn til Radcliffe enda hafði félagið ekki tilkynnt um félagaskipti skoska framherjans.

Fyrir sex árum var Goodwillie fundinn sekur um að vera nauðgari í einkamáli ásamt fyrrverandi samherja sínum, David Robertson. Þeir greiddu þolandanum hundrað þúsund pund í skaðabætur. Goodwillie fór þó ekki fyrir rétt því ekki þóttu næg sönnunargögn fyrir hendi.

Forráðamenn Radcliffe sáu greinilega eftir því að hafa samið við Goodwillie því í morgun sendi félagið frá sér yfirlýsingu þess efnis að samningi framherjans hefði verið rift.

Radcliffe er ekki fyrsta félagið sem rekur Goodwillie. Fyrir ári gerði Raith Rovers í Skotlandi slíkt hið sama í fyrra. Goodwillie náði reyndar aldrei að spila fyrir skoska liðið. Líkt og Radcliffe baðst Raith Rovers afsökunar á að hafa samið við Goodwillie.

Í yfirlýsingu frá Radcliffe segir að félagið vilji gefa fólki annað tækifæri í lífinu en þarna hafi það lesið vitlaust í stöðuna.

Goodwillie, sem er 33 ára, hefur komið víða við á ferlinum. Lengst af lék hann Dundee United og Clyde í Skotlandi. Hann lék þrjá leiki fyrir skoska landsliðið og skoraði eitt mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×