Erlent

Rúmlega tuttugu og eitt þúsund látnir

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Eyðileggingin í Antakya þar sem íslenska teymið er að störfum er gífurleg eins og þessi loftmynd sýnir. 
Eyðileggingin í Antakya þar sem íslenska teymið er að störfum er gífurleg eins og þessi loftmynd sýnir.  AP Photo/Hussein Malla

Opinberar tölur yfir dauðsföll í jarðskjálftunum í Tyrklandi og Sýrlandi standa nú í 21.719 og fjölgaði í hópi látinna um 668 í nótt.

Talið er öruggt að enn eigi staðfestum dauðsföllum eftir að fjölga á næstu dögum og vara Sameinuðu þjóðirnar við því að full áhrif hamfarana séu enn ekki komin í ljós. Enn er fólk að finnast á lífi í rústunum en vonin um slíkt minnkar hinsvegar með hverjum klukkutímanum sem líður.

Afar kalt er í veðri á hamfarasvæðunum sem ógnar einnig þeim tugþúsundum sem nú eru án húsaskjóls. Erdogan Tyrklandsforseti kallaði atburðinn í ræðu í gærkvöldi mestu hamfarir aldarinnar. Sífellt bætist þó í hóp þeirra sem leggja björgunar og endurreisnarstarfi lið.

Alþjóðabankinn tilkynnti um það að Tyrkir muni fá tæpa 1,8 milljarða Bandaríkjadala í neyðaraðstoð og um hundrað þúsund manns taka nú þátt í björgunaraðgerðunum.

Þar á meðal er hópur Íslendinga sem starfa í borginni Antakya sem varð sérstaklega illa úti í skjálftunum.


Tengdar fréttir

„Það er enn­þá verið að finna fullt af lifandi fólki“

Óttast er að fjöldi manns sem lifðu af mannskæða jarðskjálftann sem reið yfir Tyrkland og Sýrland á mánudag muni láta lífið vegna hörmulegra aðstæðna. Um tuttugu þúsund dauðsföll eru nú staðfest. Teymisstjóri íslenska hópsins sem vinnur að björgunarstörfum í Tyrklandi segir að lifandi fólk sé enn að finnast í rústunum en vonin fari dvínandi með hverjum deginum.

Íslenski hópurinn tekur til hendinni í Tyrklandi

Hópur björgunarsveitarmanna frá Íslandi lenti í Tyrklandi í gærnótt. Hópurinn er nú búinn að koma sér fyrir við Hatay Expo svæðið í Antakya borg, þar sem yfirstjórn aðgerða á svæðinu er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×