Fótbolti

Lést eftir að hafa varið vítaspyrnu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arne Espeel hneig niður strax eftir vítaspyrnuna.
Arne Espeel hneig niður strax eftir vítaspyrnuna. Twitter

Belgíski markvörðurinn Arne Espeel lést eftir að hafa hnigið niður í leik með fótboltaliði sínu.

Espeel var aðeins 25 ára gamall. Sjúkraliðar reyndu að endurlífga hann á vellinum en hann var úrskurðaður látinn stuttu eftir að hann kom á sjúkrahús.

Espeel, sem lék með liði Winkel Sport B, hneig niður rétt eftir að hann hafði varið vítaspyrnu frá leikmanni Westrozebeke.

Hann varði vítið og stóð upp til að loka á frákastið en féll síðan aftur í jörðina. Sjúkraliðar reyndu að nota stuðtæki en án árangurs.

Krufning mun gefa frekari upplýsingar um það sem gerðist hjá markverðinum.

„Þetta er hörmulegt og áfall fyrir alla,“ sagði Patrick Rotsaert, íþróttastjóri Winkel, í samtali við Nieuwsblad.

„Arne hafði verið með félaginu allt sitt lífi og var elskaður af öllum. Hann var alltaf í góðu skapi, fann til með öllum og var alltaf tilbúinn að aðstoða. Þetta er þungt högg, í fyrsta lagi fyrir fjölskyldu hans en einnig fyrir allt félagið,“ sagði Rotsaert.

Fjölskylda og vinir Arne Espeel hafa komið með blóm og kransa og lagt þá við markið þar sem Espeel hneig niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×