„Viðsnúningurinn heldur áfram og árangur ársins góður. Við höfum unnið í að lækka kostnaðargrunn félagsins sem skilaði árangri og mun skila sér enn frekar á árinu 2023,“ segir Yngvi Halldórsson, forstjóri Sýnar, í uppgjörstilkynningu sem félagið sendi frá sér eftir lokun markaða fyrr í dag.
Rekstrarhagnaður fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækisins, sem rekur meðal annars miðla undir merkjum Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, jókst um 116 prósent á milli ára og var samtals um 1.592 milljónir króna. Þá var hagnaður eftir skatt um 888 milljónir.
Afkomuspá Sýnar fyrir þetta ár tekur ekki tillit til einskiptishagnaðar vegna sölu á stofnneti Sýnar til Ljósleiðarans fyrir 3 milljarða króna, sem kemur þá til viðbótar. „Væntingar standa til að viðskiptin klárist endanlega á fyrri helmingi þessa árs og að bókfærður hagnaður verði 2.436 milljónir. Leitast verður til þess að skila ávinningi sölunnar til hluthafa,“ að því er segir í tilkynningunni.
Stjórn Sýnar mun að sama skapi leggja til við aðalfund að greiddur verður arður upp á 300 milljónir króna til hluthafa vegna ársins í fyrra.
Eigið fé Sýnar nam um 9,5 milljörðum króna í árslok en eiginfjárhlutfallið var um 28 prósent og hélst nánast óbreytt frá fyrra ári. Handbært félagsins var rúmlega tveir milljarðar króna.
Tekjur Sýnar minnkuðu lítillega á fjórða ársfjórðungi og voru samtals tæplega 5,8 milljarðar. Yfir árið í heild var hins vegar um 6 prósenta vöxtur og námu tekjurnar um 23 milljörðum. Á síðasta fjórðungi var vöxtur í tekjum af fjölmiðlun upp á 3 prósent, sem námu 2.254 milljónum drifið áfram af miklum vexti í tekjum á Vísi, á meðan það var 11 prósenta samdráttur í tekjum af farsíma. Þá minnkuðu tekjur af hýsingar- og rekstrarlausnum hjá Endor en í uppgjörinu er nefnt að tekjuvöxturinn þar falli einkum til á fyrri árshelmingi.
Heildarfjárfestingar Sýnar í fyrra voru tæplega 4 milljarðar en þar af eru fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum og óefnislegum eignum (án sýningarrétta) 1.681 milljónir móti 1.214 milljónum á árinu 2021 og skýrist hækkun á milli ára að mestu af auknum krafti í 5G uppbyggingu. Fjárfestingar í sýningarréttum voru um 2.291 milljónir og lækkuðu um 250 milljónir milli ára. „Lægri fjárfesting í sýningarréttum birtist í minni afskriftum í rekstrarreikningi og gera áætlanir félagsins ráð fyrir að sú þróun haldi áfram,“ segir í uppgjörstilkynningu.
Við höfum unnið í að lækka kostnaðargrunn félagsins sem skilaði árangri og mun skila sér enn frekar á árinu 2023.
Forstjóri Sýnar segir að gerðar hafi verið talsverðar breytingar á rekstri félagsins síðustu mánuði, skil skerpt milli rekstrareininga og unnið að því að lækka rekstrarkostnað.
„Hagræðing í rekstri félagsins hefur einnig falist í því að innleiða ný kerfi og tækni sem kosta minna til lengri tíma litið og tryggja örugg og sjálfbær fjarskipti. Við höfum ávallt lagt mikla áherslu á að fjárfesta í nýsköpun til að styðja við framþróun fyrirtækisins og nú horfum við enn frekar til sjálfbærni í því ljósi,“ að sögn Yngva.
Hlutabréfaverð Sýnar stóð í 59,5 krónum á hlut við lokun markaða í dag og hefur lækkað um 4 prósent síðustu tólf mánuði. Markaðsvirði félagsins er um 16 milljarðar.