Stöð 2 Sport
Sérfræðingar Stöðvar 2 Sports verða á sínum stað með Körfuboltakvöld kvenna þar sem farið verður yfir leiki liðinnar umferðar í Subway-deildinni klukkan 17.00.
Olís-deild karla í handbolta tekur svo við keflinu að þættinum loknum og klukkan 17.55 hefst bein útsending frá stórleik í Hafnarfirði þar sem FH-ingar taka á móti ÍBV. Liðin sitja í öðru og þriðja sæti deildarinnar og ætli FH-ingar að halda Eyjamönnum fyrir neðan sig í töflunni þurfa þeir á sigri að halda.
Klukkan 19.30 er svo komið að hinu Hafnarfjarðarliðinu þegar Haukar sækja Framara heim.Takist Haukum að vinna leikinn verða fimm lið jöfn með 19 stig í 4.-8. sæti deildarinnar.
Stöð 2 Sport 2
Lengjubikar karla í knattspyrnu heldur áfram og klukkan 19.05 hefst bein útsending frá viðureign Stjörnunnar og Fram.
Stöð 2 Sport 4
Nátthrafnarnir þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur af íþróttaleysi því klukkan 01:30 eftir miðnætti hefst bein útsending frá HSBC Women's World Championship á LPGA-mótaröðinni í golfi.
Stöð 2 Sport 5
Álftanes tekur á móti Fjölni í 1. deild karla í körfubolta klukkan 19.05, en með sigri eru Álftnesingar svo gott sem búnir að tryggja sér sæti í deild þeirra bestu.
Stöð 2 eSport
Áskorendastig Stórmeistaramótsins í CS:GO heldur áfram frá klukkan 19.15 þar sem barist er um laus sæti á Stórmeistaramótinu sjálfu.