Fótbolti

Aroni og félögum mistókst að hrifsa til sín toppsætið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson í búningi Al Arabi.
Aron Einar Gunnarsson í búningi Al Arabi. Getty/Simon Holmes

Aron Einar Gunnarsson og félagar hans í Al Arabi máttu þola 3-1 tap er liðið heimsótti Al-Duhail í toppslag katörsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í kvöld.

Aron lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Al Arabi, en það voru heimamenn í Al-Dauhail sem tóku forystuna strax á sjöundu mínútu. Liðið bætti svo öðru marki sínu við stuttu fyrir hálfleik, en í millitíðinni höfðu gestirnir þó náð að jafna metin.

Aron og félagar þurftu svo að leika síðustu mínútur leiksins manni færri eftir að Omar Al Somah krækti sér í tvö gul spjöld með tveggja mínútna millibili og þar með rautt. Heimamenn nýttu sér liðsmuninn og bættu þriðja markinu við í uppbótartíma og þar við sat.

Niðurstaðan því 3-1 sigur Al-Duhail sem nú er með fjögurra stiga forskot á toppi katörsku deildarinnar. Aron og félagar sitja í öðru sæti með 31 stig og hafa leikið einum leik meira en Al-Duhail.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×