Lífið

„Okkar leið til að heiðra minningu okkar barna og allra barnanna sem fengu ekki að lifa“

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Þær Gréta Rut, Berta og Hildur standa fyrir hlaupaáskorun til styrktar samtökunum Gleym Mér Ei. Þær þekkja samtökin af eigin raun því þær deila allar þeirri lífsreynslu að hafa misst barn.
Þær Gréta Rut, Berta og Hildur standa fyrir hlaupaáskorun til styrktar samtökunum Gleym Mér Ei. Þær þekkja samtökin af eigin raun því þær deila allar þeirri lífsreynslu að hafa misst barn. samsett

Berta Þórhalladóttir, Gréta Rut Bjarnadóttir og Hildur Grímsdóttir eru þrjár öflugar konur sem deila þeirri lífsreynslu að hafa misst barn. Nú í mars standa þær fyrir áskorun þar sem þær hvetja fólk til þess að hreyfa sig til styrktar samtökunum Gleym Mér Ei sem hafa reynst syrgjandi foreldrum dýrmæt á erfiðustu tímum lífsins.

Berta var búsett í Danmörku þegar hún varð ólétt árið 2016. Meðgangan gekk vel en þegar hún var gengin 34 vikur fór hún af stað. Um sólarhring síðar fæddist Theodór Nói.

„Þá kemur í ljós að hann andar ekki,“ segir Berta. Strax eftir fæðinguna var farið með Theodór Nóa afsíðis og faðir hans fékk að fylgja honum á meðan Berta fæddi fylgjuna.

„Svo eftir það er ég keyrð í hjólastól og þá tekur við mér það sem líktist atriði úr Gray's Anatomy. Það eru fimm læknar að reyna að pumpa barnið mitt. Pínulítill strákur liggur á borðinu og læknarnir standa yfir honum. Ég stend og bara frýs. Manni fannst þetta ótrúlega margir tímar.“

Hann hefði aldrei getað lifað

Fjölskyldan var flutt á Ríkissjúkrahúsið í Danmörku þar sem Theodór Nói var settur í öndunarvél.

„Þá kemur í ljós að hann var bara mjög nýrnaveikur. Hann hefði aldrei getað lifað því nýrun voru of stór og lungun náðu ekki að þroskast. Það var allt reynt.“

Theodór Nói var settur í kælivöggu og fengu foreldrarnir því þrjá dýrmæta daga með syni sínum. „Fjölskyldan okkar kom til okkar og við erum ótrúlega þakklát fyrir það, að þau hafi fengið að hitta hann og kynnast honum.“

„Svo labbar maður náttúrlega út af spítalanum með ekkert barn og það er mjög skrítin tilfinning. Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja um tímann sem tók þarna við. Maður var bara dofinn.“

„Við eigum annað barn þannig maður varð að vakna en ég var bara eins og draugur,“ segir Berta sem lýsir því hvernig hversdagslegir hlutir eins og að borða og baða sig urðu henni allt í einu mjög erfiðir.

Berta segir hreyfingu hafa reynst sér vel þegar hún hefur þurft að glíma við erfiðleika í gegnum tíðina.Aðsend

Stundum öskraði hún og grét á hlaupunum

Berta segist alla tíð hafa nýtt sér hreyfingu sem ákveðið meðal þegar hún hefur þurft að glíma við erfiðleika í lífinu. 

„Við lendum í alls konar í lífinu og hreyfing hefur alltaf verið svona mitt akkeri. Þannig ég fór örugglega alltof snemma af stað í ræktina en það var bara mitt bjargráð.“

Berta byrjaði á því að finna sér nýja líkamsræktarstöð og byrjaði á því að stunda lyftingar. Á ákveðnum tímapunkti ákvað hún svo að byrja að fara út að hlaupa. Í hlaupunum segist Berta hafa fundið fyrir miklu frelsi.

„Þá var ég bara ein og náttúran gerir svo mikið, að fá vindinn framan í sig. Stundum öskraði maður og grenjaði. Maður var bara einn með sjálfum sér og það var eitthvað svo mikið frelsi.“

Berta segist hafa öðlast nýja sýn á lífið eftir áfallið.Aðsend

Vildu gefa til baka

Eftir missinn segist Berta hafa öðlast algerlega nýja sýn á lífið. Líkamleg og andleg heilsa urðu hennar forgangsatriði. Hún ákvað að fylgja sinni ástríðu og menntaði sig sem bæði markþjálfi og einkaþjálfari.

Fyrir ári síðan fékk Berta svo hugmynd. Hana langaði til þess að efna til hreyfingaráskorunar til styrktar samtökunum Gleym Mér Ei. Samtökin höfðu reynst henni vel eftir andlát Theodórs og nú fannst henni kominn tími til þess að gefa til baka.

Í gegnum samtökin hafði Berta kynnst þeim Grétu Rut og Hildi Gríms. Gréta hafði misst son sin Hinrik Leó árið 2018 og Hildur hafði misst soninn Hergeir Þór árið 2019.

Hinrik Leó, sonur Grétu Rutar, lést árið 2018.Aðsend
Hergeir Þór, sonur Hildar, lést árið 2019.Aðsend

Skora á fólk að fara 100 kílómetra í mars

Berta vissi að þær væru báðar miklar hlaupakonur og ákvað hún því að fá þær til liðs við sig. Þær efndu til áskorunarinnar 100 km í mars - Til styrktar Geym Mér Ei. Hún felur það í sér að þátttakendur eru hvattir til þess að fara 100 kílómetra í marsmánuði, hvort sem það sé hlaupandi, gangandi, hjólandi eða syndandi.

„Þátttakan var þvílíkt góð í fyrra og við náðum að safna alveg dágóðum pening. Það voru allir til í þetta. Það var nýbúið að vera Covid og það voru allir svo peppaðir í þetta.“

Nú er áskorunin farin af stað á ný og segir Berta öll vera velkomin. Hún segist gera sér grein fyrir því að 100 kílómetrar hljómi eflaust mikið fyrir einhverjum en hún hvetur þó öll til þess að taka þátt og gera sitt besta.

„Ef þú fórst kannski 10 kílómetra síðast, reyndu þá að nýta þetta sem hvatningu og fara kannski 20 kílómetra núna. Ég er ekki að fara skamma neinn sem fer ekki 100 kílómetra. Þetta er meira bara hvatning fyrir fólk að hreyfa sig aðeins meira. Okkur veitir ekkert af því.“

Berta segir áskorunina hafa farið fram úr vonum á síðasta ári.Aðsend

Hjálpa syrgjandi foreldrum að búa til fallegt augnablik

Það kostar 3.000 krónur að taka þátt og rennur allur ágóði óskertur til samtakanna Gleym Mér Ei. Tilgangur Gleym Mér Ei er að vera til staðar fyrir þá sem verða fyrir missi á meðgöngu eða í/eftir fæðingu. Félagið heldur utan um styrktarsjóð sem notaður er til þess að styrkja málefni tengd barnsmissi.

„Þau gefa foreldrum til dæmis mjög fallegan minningarkassa með alls konar hlutum í, bangsa, armband fyrir bæði þig og barnið og alls konar.“

„Það er náttúrlega ekkert huggulegt við að missa barnið sitt en það er verið að hjálpa foreldrum að búa til fallegt augnablik og minningu sem þú getur tekið með þér.“

Bertu, Grétu og Hildi finnst mikilvægt að gefa samtökum, sem reyndust þeim svo dýrmæt, til baka. Þær halda utan um Facebook-hópinn 100 KM í mars - Til styrktar Gleym mér ei! og lofa mikilli hvatningu.

„Þetta er okkar leið til að heiðra minningu okkar barna og allra barnanna sem fengu ekki að lifa. Það er eitthvað svo fallegt við það að gefa af sér og í leiðinni hvetja fólk til að hreyfa sig. Þetta er win-win fyrir alla.“


Tengdar fréttir

„Öll ástin kom, þó að hjartað hans hafi ekki slegið“

„Mér fannst ég strax sjá einhverja kunnuglega svipi og maður var að lesa í allskonar, hvernig puttarnir og tásurnar hans voru, og litli nebbinn,“ segir Hildur Grímsdóttir en hún var komin 25 vikur á leið með sitt þriðja barn þegar í ljós kom að það var enginn hjartsláttur. Litli drengurinn fékk nafnið Hergeir Þór.

Við svona áfall virðast allir draumar og vonir úti

Berta Þórhalladóttir er á meðal þeirra sem hleypur tíu kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun. Hún hleypur til styrktar samtökunum Gleym mér ei en Berta er ein þeirra sem hafa orðið fyrir því áfalli að missa barnið sitt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.