Eins og alþjóð veit er forsetinn mikill íþróttaáhugamaður og hann hefur verið tíður gestur á leikjum Álftaness í 1. deild karla í körfubolta í vetur. Hann var því eðlilega kátur þegar sætið í Subway-deildinni var tryggt.
„Þetta er afrakstur vinnu fjölda fólks sem hefur lagt af mörkum og nú er um að gera að njóta. Markmiðinu er náð.“
Sinnir sjálfboðastarfi á leikjum
Guðni hefur ekki aðeins mætt í Forsetahöllina sem áhorfandi á körfuboltaleiki, heldur hefur hann oft lagt sitt af mörkum sem sjálfboðaliði í gegnum tíðina.
„Ég hef reynt að hjálpa til bara með krökkunum. Ég hef ekki verið að hlaða á mig verkefnum, en ég hef notið þess. Þetta er svo gott fyrir okkur Álfnesinga að koma hér saman og styðja okkar lið. Þetta er gott fyrir bæjarbraginn og svo verður auðvitað svakalegt fjör þegar verður hér alvöru grannaslagur næsta vetur,“ sagði Guðni, en Álftanes mun að sjálfsögðu taka á móti nágrönnum sínum í Stjörnunni í Subway-deildinni á næsta tímabili.

„Þegar rétt er að verki staðið þá geta íþróttir gefið svo mikið“
Þá segir Guðni að það að eiga lið í deild þeirra bestu hafi mikla þýðingu fyrir lítið bæjarfélag eins og Álftanes.
„Það gerir það og þegar rétt er að verki staðið þá geta íþróttir gefið svo mikið fyrir svona öflugan bæjarbrag. Hér hittumst við nágrannar, vinir, foreldrar og krakkar og spjöllum og eigum góða stund fyrir utan það að styðja okkar lið. Þannig þetta er það jákvæða við þetta og nú bara gætum við okkar á að fara ekki offari.“

„Þetta lið Álftaness er líka með yngriflokkastarf sem er að vaxa og við ætlum að gera það enn öflugra. Þannig við tökum öll þátt í þessu saman og förum ekki að ætla okkur um of. Við reynum að hanga uppi en svo verðum við bara að sjá hvernig það gengur. Við höfum því miður dæmi um það að það er hægara sagt en gert. Það er ekkert mál að fara upp en að hanga uppi, það er önnur saga.“
Íþróttir hafi sameiningarmátt
Guðni tók einnig undir það að íþróttir og árangur í íþróttum sameini fólk.
„Þetta gerir það, virkilega. Þetta gerir það og maður finnur það hvað fólki finnst gaman að geta hist og horft á sitt lið. Þannig að það er það jákvæða við þetta og við ætlum að halda áfram á þeirri braut.“
Að lokum viðurkenndi Guðni að hann væri nú bara nokkuð montinn með sína menn.
„Ég er það fyrir hönd liðsins. Auðvitað hef ég ekki gert neitt annað en að mæta hér og svona aðeins hjálpað til. En það er fjöldi fólks sem á hrós skilið fyrir alveg ótrúlega vinnu og elju við að halda þessu gangandi. Út á það gengur þetta,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, að lokum.
