Lífið

Fagnaðar­læti er Krist­mundur og Júlí komu til baka: „Þetta lag...“

Máni Snær Þorláksson skrifar
Kristmundur Axel og Júlí Heiðar komu fram á Hlustendaverðlaununum í gær.
Kristmundur Axel og Júlí Heiðar komu fram á Hlustendaverðlaununum í gær. Hulda Margrét Ólafsdóttir

Þeir Kristmundur Axel og Júlí Heiðar slógu eftirminnilega í gegn fyrir þrettán árum. Nú hafa þeir snúið bökum saman á ný en þeir frumfluttu nýtt lag á Hlustendaverðlaununum í gær. Þá tóku þeir einnig smellinn sinn, við mikinn fögnuð viðstaddra. 

Kristmundur og Júlí unnu Söngvakeppni framhaldskólanna árið 2010 með laginu Komdu til baka. Í laginu syngja þeir félagar eigin texta yfir lagið Tears In Heaven með Eric Clapton. Lagið fjallar að mestu um fíknivanda föður Kristmundar.

Júlí rifjaði það upp í Veislunni með Gústa B á FM957 í vikunni hvernig það kom til að þeir tóku þátt í keppninni á sínum tíma:

„Þetta var mjög skemmtilegt. Þegar við tókum þessa ákvörðun þá vorum við heima hjá þér Kristmundur. Ég tók upp kassagítarinn og var að spila lagið þitt. Þá einhvern veginn, eitthvað gerðist þar. Við hugsuðum: Já, bíddu við. Það er einhver söngkeppni. Við verðum að taka þátt,“ segir Júlí.

„Þetta lag... er orðið þrettán ára gamalt“

Nú er komið út nýtt lag með tvíeykinu sem nefnist Ég er. Kristmundur og Júlí frumfluttu lagið á Hlustendaverðlaununum sem fóru fram í gærkvöldi. Fyrir það hafði Júlí flutt lagið sitt Ástin heldur vöku sem tilnefnt var sem lag ársins á hátíðinni. Þá var Júlí tilnefndur sem flytjandi ársins og söngvari ársins. 

Eftir að hafa sungið nýja lagið sagði Kristmundur fyrstu tvö orðin í Komdu til baka: „Þetta lag...“ Allur salurinn sá hvað í stefndi og fagnaði ákaft. Þá kláraði Kristmundur setninguna sem var örlítið breytt þeirri sem er í upphaflega laginu: „...er orðið þrettán ára gamalt. Má ég heyra alla hérna syngja með?“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×