Gerða er einn eftirsóttasti þjálfari landsins. Hún heldur úti námskeiðinu InShape í líkamsræktarstöðinni World Class. Námskeiðið er ætlað konum sem vilja komast í betra form á skemmtilegan hátt og hefur það slegið rækilega í gegn.
Til viðbótar við námskeiðið hefur Gerða staðið fyrir skemmtilegum heilsuviðburðum þar sem konur koma saman til þess að styrkja bæði líkamann og tengslanetið.
„Ég elska að búa til platform þar sem konur sameinast í heilbrigðu umhverfi en það tengist starfi mínu sem íþróttafræðingur. „Heilsupartý“ er nýjasta trendið að mínu mati, þar sem konur gefa sér rými til að kynnast öðrum konum, hreyfa sig og næra bæði líkama og sál,“ segir Gerða í samtali við Vísi.
Gerða segist finna fyrir mikilli eftirspurn eftir slíkum viðburðum, enda er þetta sá þriðji sem hún heldur á stuttum tíma.
Skáluðu undir norðurljósunum
Í þetta skiptið fékk hún til liðs við sig vinkonu sína Thelmu Guðmundsen en þær deila mikilli ástríðu fyrir velferð kvenna. Þá þeytti DJ Dóra Júlía skífum og sá til þess að allir væru í góðum gír.
Á meðal þeirra kvenna sem mættu voru stjörnukokkurinn Hrefna Sætran, fatahönnuðurinn Andrea Magnúsdóttir, ljósmyndarinn Aldís Pálsdóttir, förðunardrottningarnar Heiður Ósk, Ingunn Sig og Kolbrún Anna Vignis, búningahönnuðurinn Sylvía Lovetank, næringarþjálfarinn Helga Magga, þjálfarinn Karítas María Lárusdóttir og Bryndís Rún, markaðsstjóri Icepharma.
Kvöldið byrjaði á InShape æfingu í hlöðunni í Hvammsvík. Því næst gæddi hópurinn sér á súpu og lauk kvöldinu svo ofan í náttúruböðunum. Þar skörtuðu norðurljósin sínu fegursta og konurnar skáluðu fyrir vel heppnuðu kvöldi.
Hér fyrir neðan má sjá myndir frá kvöldinu.















