Þessu greina forsvarsmenn hátíðarinnar frá á Facebook-síðu Eistnaflugs. Þar segir að ástæður þess að aflýsa þurfi hátíðinni séu nokkrar og flestar beinar eða óbeinar afleiðingar af heimsfaraldrinum. Þó sé stefnt á að halda tónleikana síðar, í nýjum og betri búningi.
„Bara til að hafa það alveg á hreinu, þá er þetta pása til að taka okkur saman, jafna okkur eftir COVID og endurskoða vinnuferlið og formúluna okkar. Við viljum aðeins gera okkur besta, því það er það sem fólkið okkar á skilið!“ segir í tilkynningu Eistnaflugs.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hátíðum hefur verið aflýst vegna kórónaveirunni, löngu eftir að samkomutakmörkunum var aflétt. Síðasta sumar var mýrarboltanum á Ísafirði aflýst og faraldrinum kennt um. Síðar kom þó í ljós að forsvarsmenn hátíðarinnar hafi ekki hist til að leggja á ráðin og skipuleggja hátíðina í tæka tíð.