Fótbolti

„Ef við hefðum ekki unnið í dag hefði allt orðið vitlaust“

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Guðlaugur Victor í baráttunni í dag.
Guðlaugur Victor í baráttunni í dag. vísir/Getty

Guðlaugur Victor Pálsson lék allan leikinn fyrir Ísland í stórsigri á Liechtenstein í undankeppni EM í dag.

Hann kvaðst ánægður með frammistöðu liðsins í dag.

„Mjög gott. Það er ekkert gefið að koma hingað, sérstaklega eftir síðasta leik, og við vissum alveg hvað var undir. Ef við hefðum ekki unnið í dag hefði allt orðið vitlaust. Það var gott að við tókum þetta og gerðum það almennilega,“ sagði Guðlaugur Victor.

En hvernig tækluðu menn vonbrigðin í Bosníu?

„Við ræddum saman og töluðum opinskátt um það. Við vissum það sjálfir að þetta var bara barnaleg frammistaða. Það þarf ekkert að skafa af því. Við vorum hundlélegir, bæði sem einstaklingar og lið og þetta er eitthvað sem má ekki gerast. Ef við viljum komast á stórmót eiga svona hlutir ekki að gerast,“ sagði Guðlaugur, ákveðinn.

„Við undirbjuggum okkur mjög vel fyrir þennan leik eins og alla aðra. Við vissum að það að skora fljótt yrði mikilvægt, sem við gerðum og svo er dæmt mark af okkur í fyrri hálfleik en við mætum aftur út í síðari hálfleik og klárum þetta almennilega.“

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði liðsins, skoraði þrjú mörk í leiknum en hann lék í stöðu miðvarðar.

„Algjör þvæla sko,“ sagði Guðlaugur Victor, léttur í bragði, áður en hann hélt áfram: „Nei bara frábært fyrir hann og við vitum hversu mikilvægur hann er fyrir okkur.“

Guðlaugur hefur leikið hinar ýmsu leikstöður fyrir íslenska landsliðið en spilaði í hægri bakverði í dag.

„Ég kann bara vel við mig þar sem þjálfarinn vill að ég spili. Ég hef spilað þessa stöðu undanfarið og mér líður vel í því. Ég get spilað aðrar stöður og ég geri bara það sem þjálfarinn biður mig um og geri mitt besta í því.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×