Forsetahjónin skoðuðu meðal annars heilsugæslustöðina í Vík í dag og við það tækifæri afhentu Lionsmenn stöðinni formlega líkamsgreiningartæki. Einnig var haldinn fundur með sveitarstjórn Mýrdalshrepps og nemendur Víkurskóla voru heimsóttir svo eitthvað sé nefnt.
„Vík er í þjóðbraut, vaxandi sveitarfélag og hér eru sérkennin kannski þau að meirihluti íbúa er af erlendu bergi brotinn og maður sér það líka hér í skólanum. En hér er öflugt samfélag þar sem fólk leggur sitt af mörkum,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti.

Um 52 prósent íbúa í Mýrdalshreppi eru útlendingar.
„Það er bara frábært, þetta er Ísland í dag og saman eflum við heildina þannig að allir njóti góðs af,“ segir Guðni.
„Það er okkur ótrúlega mikill heiður að taka á móti forsetahjónunum og bara gaman að sjá hvað þau eru einlæg í sinni nálgun gagnvart íbúum og það er gaman fyrir okkur að fá að kynnast þeim,“ segir Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps.

Og krakkarnir í skólanum fengu Guðna til að taka lagið en á morgun er einmitt árshátíð Víkurskóla þar sem leikritið um Emil í Kattholti verður sýnt.
Og það var ekki nóg með að Guðni Th. sýndi sönghæfileikana sína í Vík, heldur bauð hann krökkunum að koma í sjómann við sig í matsalnum og alltaf tapaði forsetinn.
